Þema Barnamenningarhátíðar í ár er lýðræði en í ár eru 80 ár síðan lýðveldi var stofnað á Íslandi. Systkinin Valgeir Skorri, Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís í hljómsveitinni Celebs voru fengin til að semja lagið en þau segja verkefnið hafa verið einstaklega skemmtilegt.
„Það er svo mikil orka í börnunum og við getum ekki beðið eftir því að stíga á svið í Hörpu og flytja lagið okkar,“ er haft eftir þeim í tilkynningu en hátíðin verður sett í Hörpu þriðjudaginn 23. apríl næstkomandi og stendur yfir til sunnudagsins 28. apríl.
Hér fyrir neðan má sjá þegar lagið var frumflutt í dag.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri var viðstaddur er lagið var frumflutt og afhentu nemendur Hlíðaskóla honum bréf frá nemendum í fjórðu bekkjum í Reykjavík þar sem þau segja frá því hverju þau vilja breyta í samfélaginu.
„Meðal þess sem fram kemur í óskum barnanna er til dæmis að banna stríð og ofbeldi, kaupa mat fyrir þá sem þurfa, frið í heiminum, hætta að selja tóbak, McDonald‘s aftur á Íslandi, hraðskreiðari lyftur í skólana og fleiri ferðir til Tene, svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni.