Það leynist ýmislegt í tösku Kolbrúnar Önnu eins og hún deilir hér fyrir neðan.

Hvað er í töskunni þinni og segðu okkur aðeins frá því sem er?
Tæki: Airpods, hleðslubanki og auðvitað síminn.
Ég vil aldrei verða batteríslaus og vinn mikið í símanum og er því alltaf með risa hleðslubanka á mér.
Ég á gamla filmuvél sem ég sting iðulega í töskuna en þó aðallega á sumrin þegar ég fer í ferðalög eða er að gera eitthvað skemmtilegt sem er gaman að fanga á filmu.

Dagbók og plastvasi fyrir kvittanir. Ég er að taka skipulagið mitt í gegn og þessir hlutir eru að hjálpa til við að halda öllu í röð og reglu.

Ég er mikið á ferðinni og oft að hoppa á milli staða og þá finnst mér gott að hafa alltaf handspritt, tannstöngla, míní munnskol og tyggjó. Ég vinn líka ofan í andlitinu á fólki svo þetta eru allt lykilvörur að hafa í veskinu hjá sminkum.

Ég er alltaf með sólgleraugu meðferðis og þessi frá Chimi hafa verið í töskunni síðan ég keypti þau í fyrra.

Það er eitt hólf í töskunni sem er svona „touch up“ hólf. Þar er ég með púður til að matta ef ég verð glansandi, nokkra varaliti, varablýant og varaolíu.

Hefur einhver hlutur tilfinningalegt gildi?
Ekki beint en mér finnst mjög gott að hafa dagbók sem ég skrifa alls konar sem kemur upp í hugann hverju sinni. Hvort sem það er eitthvað tengt vinnu, hugmyndum eða sjálfsvinnu.
Er eitthvað sem er alltaf í töskunni þinni?
Ég er alltaf með airpodsin mín á mér. Ég fékk fyrstu airpodsin mín í afmælisgjöf í fyrra og skil núna hype-ið! Er oftar en ekki með hlaðvarp í eyrunum.
Hver er þín uppáhalds taska og afhverju?
Taskan mín frá bosk. Hún Berglind sem hannar og saumar töskurnar er algjör snillingur og notar endurunnið garn. Ég pantaði græntóna tösku hjá henni því ég elska grænan !

Ertu dugleg að taka til í töskunni þinni og halda röð og reglu?
Já og nei, ég tek þetta í syrpum. Ég var til dæmis að kaupa mér nýja tösku og færa allt yfir í hana og þá tók ég allt í gegn. Það var alveg kominn tími til.

Ertu gjarnan með margar töskur á þér eða margar til skiptanna?
Ég myndi ekki segja að ég væri með mikið töskublæti, er oftast bara með sömu tösku hversdags. Ég á síðan nokkrar til skiptanna sem ég nota við fínni tilefni.

Stór eða lítil taska og afhverju?
Stór taska dagsdaglega en minni þegar ég fer eitthvað fínt. Dagsdaglega er ég alltaf með stóra svo allt komist fyrir. Þá er ég gjarnan með aðra minni tösku með hólfum ofan í stóru. Ég elska að hafa tösku með hólfum, þá er ég fljótari að finna allt.