Tíska og hönnun

„Eins nakin og ég kemst upp með“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Unnur Borg ræddi við blaðamann um tískuna.
Unnur Borg ræddi við blaðamann um tískuna. SAMSETT

„Eftirminnilegasta flík sem ég hef verið í er Nings peysa sem ég fékk þegar ég var starfsmaður þar. Hún var bara ekkert smá flott með svona merki á bakinu og í extra small,“ segir rísandi stjarnan og steypustöðvarstarfsmaðurinn Unnur Borg Ólafsdóttir sem hefur vakið athygli fyrir einstök tískumyndbönd á samfélagsmiðlum.

Unnur hefur meðal annars verið í auglýsingum fyrir Magdashop og takk takk, elskar mjög lágar buxur og kynþokkafullar flíkur og segir að hælaskór breyti algjörlega leiknum. Hún ræddi við blaðamann um tískuna og fataskáp sinn.

Unnur Borg elskar næntís og 2000 tískuvíbrurnar.Aðsend

Aldur og starfstitill?

Ég er nítján ára og er starfsmaður hjá Steypustöðinni í bókhaldi, niðri í námu og er svo með smá auka vinnu hjá Magdashop. Þar auglýsi ég föt fyrir elskuna og fæ að leika mér í dress-up á launum.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Mér finnst skemmtilegast við tískuna að sjá hvað hún er fjölbreytt. Hún er svo gott tækifæri til að tjá sig án þess að þurfa segja neitt.

Unnur elskar tjáningarform tískunnar.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Uppáhalds flíkin mín er rauði polo bolurinn minn, í raun er engin sérstök ástæða mér finnst hann bara fokking nettur. Ég á líka gott nærfatasafn og ég er mjög stolt af því. Elska nærföt.

Rauði Polo bolurinn er í miklu uppáhaldi.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Já ég eyði alltof miklum tíma. Á hverjum morgni skipti ég svona þrisvar sinnum um allt fittið til að finna það rétta fyrir daginn. Svo létt að hvolfa herberginu svona.

Unnur að finna til föt og hvolfa aðeins herberginu.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég nota bara sexy föt sem eru mjög einkennandi næntís stíll. Ég er alltaf í G-rise gallabuxum og það sést eiginlega alltaf í g-strenginn minn en mér finnst það bara mjög flott. 

Ef ég ætti að lýsa stílnum þá myndi ég segja að ég reyni að vera eins nakin og ég kemst upp með. Til dæmis versla ég aðallega boli í barnadeildum. Það bara „life hack“.

Svo á ég saumavél sem ég leik mér oft með. Þar fæ ég þessar ofur lágu (e. Low waist) buxur og súperþröngu bolina og peysurnar mínar.

Unnur elskar lágar buxur og þrönga boli.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Stíllinn minn hefur breyst en ekki beint þannig. Ég var ekkert að pæla í ákveðnum stílum, ég hreinlega fór bara í það sem mér fannst flott. 

Svo á síðastliðnu ári byrjaði ég aðeins að pæla í þessu. Ég myndi samt ekki segjast vera með einhvern ákveðin stíl í dag. Bara eitthvað sexy shit.

Unnur fer bara í það sem henni finnst flott.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Ég ELSKA að finna til outfits og klæða mig upp.

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Það sem skiptir mig mestu máli er að vera heit í heitum fötum.
Unni finnst mikilvægast að klæðast að hennar sögn heitum fötum.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Innblásturinn kemur frá Paris Hilton, Victoriu Beckham og 2000s breskum stíll.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Eitt sem er stranglega bannað hjá mér er að fara út úr húsi í kósíbuxum eða sweatpants. Það geri ég ekki. Boð myndi ég segja er að vera í hælum. 

Ég hef oft tekið tímabil þar sem ég nota ekki strigaskó og geng bara um í hælum, hvert sem ég fer. Ég bara virkilega elska fokking hælaskó.

Hælaskór eru ómissandi fyrir Unni.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Eftirminnilegasta flík sem ég hef verið í er Nings peysa sem ég fékk þegar ég var starfsmaður þar. 

Hún var bara ekkert smá flott með svona merki á bakinu og í extra small. Ég allavega elskaði hana.

Hvað finnst þér heitast fyrir 2026?

Ég veit ekkert hvað er heitast fyrir 2026 eða hvað er í tísku núna en ég vil sjá konur í hælum, ALLS STAÐAR. Af hverju er það ekki lengur venjan? Hælar breyta öllu.

Unnur fer eigin leiðir í tískunni.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Ef þér líður eitthvað óþægilega er best að skipta um föt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.