„Þetta var bara flott, fannst við massífir en oft verið meira flæði í okkur til lengri tíma. Inn á milli sýndum við flottar rispur, vorum hættulegir fram á við ásamt því að vera með stjórn á leiknum með og án bolta,“ sagði fyrirliðinn við Gunnlaug Jónsson að leik loknum.
„Þeir komu inn af meiri orku í seinni hálfleik,“ sagði Höskuldur og nefndi breytinguna sem Heimir Guðjónsson gerði en Björn Daníel Sverrisson og Finnur Orri Margeirsson komu inn á miðjuna.
„Finnur Orri og Björn Daníel eru fullvaxta karlmenn. Við vorum hins vegar með á nótunum, köstuðum okkur fyrir skot, skölluðum fyrirgjafir í burtu og svo var Anton Ari (Einarsson, markvörður Breiðabliks) með allt í lás.“
„Þetta var bara framhald af því sem við erum búnir að vera gera á undirbúningstímabilinu. Vorum massífir varnarlega.“
Þá sagði Höskuldur það ýta við Blikum að sjá önnur lið styrkja sig. Jafnframt sagði hann ómögulegt að spá fyrir um hvaða lið verði í toppbaráttunni þegar það eru 26 umferðir eftir en þar ætli Blikar sér svo sannarlega að vera.
„Fagna því almennt að það sé verið að hækka ránna, það er bara fagnaðarefni.“