Vilhjálmur sagði þetta í viðtali í Reykjavík síðdegis en á morgun mun þingflokkur Sjálfstæðisflokksins funda vegna mögulegs framboðs forsætisráðherra. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu fyrr í dag. Vilhjálmur mun mæta á fundinn á morgun.
„Við ákváðum að hafa þennan fund til að taka þessa umræðu en hún hefur ekki farið fram hjá neinum þannig að ég held það sé bara ágætt hjá okkur að hittast og fara yfir stöðuna.“
Vilhjálmur var spurður hvað honum þætti um mögulegt framboð forsætisráðherra.
„Ég hef nú alltaf verið skýr með það og sagt það áður opinberlega að ég sé ekki hvernig Vinstri grænir geta starfað áfram í ríkisstjórninni sé límið úr þeirra hópi farið annað,“ svaraði Vilhjálmur.
Hann segist ekki heldur vilja boða til kosninga ef Katrín fer í framboð.
„Nei, ég sé enga ástæðu til að fara í kosningar núna út af því að eins og ég sagði áðan, við erum komin vel á veg með það að koma fram með fjármálaáætlun til að fylgja eftir kjarasamningum. Við erum búin að undirbúa vel útlendingamálin og orkumálin og komin vel á veg þannig að það má engan tíma missa í því þannig að við þurfum að nýta það sem eftir er kjörtímabilsins til að klára þessi mál.“
Kristófer Helgason í Reykjavík síðdegis spurði hann hreint út:
En Vilhjálmur, þú ert með öðrum orðum að segja að ef Katrín býður sig fram að þá sé lífi ríkisstjórnarinnar lokið?
„Ja, ég á bara… það þarf einhvern veginn að segja mér það að það gæti gengið þar sem hún er þessi öflugi leiðtogi í sínum hópi að þá væri það erfitt. Ég hef aldrei farið í felur með það,“ svaraði Vilhjálmur.