Í frétt Helsingin Sanomat kemur fram að lögregla hafi verið kölluð á vettvang klukkan 9:08 að staðartíma, 6:08 að íslenskum tíma, og var því beint til almennings að fólk haldi sig innandyra og opni ekki fyrir ókunnugum.
Haft er eftir lögreglustjóranum Tiia Palmén að tilkynningar hafi borist um fjölda barna sem séu í felum í skólanum.
Um er að ræða Viertolan-grunnskólann í Vantaa sem er að finna norður af höfuðborginni Helsinki. Um níu hundruð nemendur í fyrsta til níunda bekk grunnskóla stunda nám við skólann. Starfsmenn skólans eru um níutíu.
Finnskir fjölmiðlar segja að mikill fjöldi sjúkrabíla og lögreglubíla sé að finna á vettvangi.
Uppfært 7:50: Lögregla í Finnlandi hefur nú greint frá því að upplýsingar séu um að þrjú börn hið minnsta hafi særst í árásinni. Hinn handtekni sé sömuleiðis á barnsaldri.