Íslenski boltinn

Vonast til að mæta Gylfa í kvöld eftir höfnunina

Sindri Sverrisson skrifar
Þrátt fyrir að hafa misst af Gylfa fagnar Arnar komu hans í íslenska boltann og vonast til að sjá hann í Víkinni í kvöld.
Þrátt fyrir að hafa misst af Gylfa fagnar Arnar komu hans í íslenska boltann og vonast til að sjá hann í Víkinni í kvöld. Samsett/Vísir

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, er staðráðinn í að fagna sigri gegn Valsmönnum í kvöld þegar fótboltasumarið hefst með Meistarakeppni KSÍ.

Víkingar voru á meðal þeirra liða sem reyndu að fá Gylfa Þór Sigurðsson í sínar raðir í vetur en Gylfi skrifaði undir samning hjá Val og gæti því mætt Víkingum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30, á Víkingsvelli.

„Vonandi spilar kappinn [Gylfi] í kvöld því ég held að allir bíði þess með óþreyju að fá að sjá hann spila alvöru leik á Íslandi. Það væri sterkt að fá að mæta honum í kvöld, og fyrir okkar stráka að mæla sig gagnvart honum,“ segir Arnar í samtali við íþróttadeild.

„Æstir í að vinna þennan titil“

Víkingar unnu báða stóru titlana á síðustu leiktíð en til þess að Meistarakeppnin geti farið fram þá mæta þeir liðinu sem varð í 2. sæti Bestu deildarinnar í fyrra, Val.

„Við erum fullir eftirvæntingar að hefja tímabilið. Það er búið að ganga á ýmsu en við erum að koma vel undan vetri. Hvað deildina varðar eru líka mörg lið búin að styrkja sig mikið, og vonandi gefur leikurinn í kvöld forsmekkinn að því sem koma skal,“ segir Arnar sem tekur leikinn í kvöld alvarlega:

„Já, mjög svo. Það er verið að berjast um titil og þetta bæði setur endapunktinn á veturinn og gefur tóninn fyrir sumarið. Við töpuðum í fyrra á móti Blikum í þessum sama leik þannig að við erum æstir í að vinna þennan titil í kvöld.“

Ný leiktíð í Bestu deildinni hefst svo um helgina þar sem Víkingar spila fyrsta leik mótsins, gegn Stjörnunni, í Fossvoginum á laugardagskvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Fagnar komu Gylfa: „Auðvitað reyndum við að fá hann“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, staðfestir að hans menn hafi reynt sitt ítrasta að fá Gylfa Þór Sigurðsson til félagsins en þurftu að játa sig sigraða í baráttunni við Val. Hann fagnar komu Gylfa í Bestu deildina, þó það sé til mótherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×