Sport

Átta­tíu prósent óttast hryðju­verka­á­rás á Ólympíu­leikunum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður nóg af lögreglumönnum í París á meðan Ólympíuleikunum stendur.
Það verður nóg af lögreglumönnum í París á meðan Ólympíuleikunum stendur. AP/Michel Euler

Frakkar hafa gripið til stóraukinna varúðarráðstafana í aðdraganda Ólympíuleikanna í París sumar. Viðvörunarstig er nú eins hátt og það getur verið.

Á sama tíma sýnir ný könnun meðal Frakka að áttatíu prósent heimamanna óttast hryðjuverkaárás á Ólympíuleikunum í sumar.

„Frakkland er skotmark,“ sagði Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakka fyrr í vikunni. Aftonbladet segir frá.

Parísarborg undirbýr sig nú fyrir það að fá þúsundir íþróttafólks og hundrað þúsundir áhorfenda til borgarinnar í sumar.

Í fyrrnefndri könnun þar sem áttatíu prósent óttuðust árás þá voru 59 prósent bjartsýnir á það að það takist að halda Ólympíuleikanna á öruggan hátt.

Það vantar ekki ráðstafanir heimamanna til að passa upp á öryggi allra.

45 þúsund lögreglumenn starfa við leikanna og á setningarathöfninni verða leyniskyttur á þökum og sérsveitarmenn verða inna á milli íþróttafólksins til að fylgjast náið með ef eitthvað grunsamlegt gerist.

Þetta verður í fyrsta sinn sem setningarhátíð fer fram í miðri á en hún verður haldin á Signu. 94 bátar munu flytja íþróttafólkið sem keppir á leikunum.

Hryðjuverkárásin í Moskvu á dögunum gerði ekkert annað en ýta undir áhyggjur um það hvað ISIS-liðar og al-Qaeda samtökin séu að skipuleggja fyrir sumarið. Það er stór ástæða þess að viðvörunarstig er í hámarki í Frakklandi fram að leikum.

Ólympíuleikarnir í París standa frá 26. júlí til 11. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×