Öryggisráðið krafðist í dag tafarlauss vopnahlés á Gasaströndinni og að leiðtogar Hamas-samtakanna sleppi þeim gíslum sem enn eru í haldi samtakanna. Ráðið krafðist einnig þess að mannúðarsamtökum yrði hleypt inn á svæðið með hjálpargögn.
Tillagan var samþykkt af fjórtán meðlimum öryggisráðsins og Bandaríkin sátu hjá. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Sjá einnig: Öryggisráð SÞ samþykkir ályktun um vopnahlé á Gasa
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að samþykkja ályktanir sem þessa á undanförnum vikum en það hefur ekki gengið eftir. Bandaríkjamenn hafa staðið í vegi nokkurra ályktana og þá að miklum hluta vegna þess að ákall um vopnahlé hefur ekki verið tengt því að gíslum Hamas-verði sleppt, þar til nú.
Tillagan sem samþykkt var í dag naut stuðnings Rússa og Kína, sem komu í veg fyrir framgöngu sambærilegrar tillögu í síðustu viku.
Sjá einnig: Hafna tillögu um „brýnt vopnahlé“
Áðurnefnd sendinefnd átti að ræða við ráðamenn í Bandaríkjunum um ætlaða árás Ísraela á Rafah. Ísraelar hafa sagt að það sé eitt síðasta vígi Hamas á Gasaströndinni en Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt Netanjahú að slík árás væri mistök.
Í nýlegu símtali varaði Biden Netanjahú við því að Ísrael ætti á hættu að einangrast vegna gífurlegs mannfalls meðal óbreyttra borgara á Gasaströndinni og mikillar eyðileggingar.
Fjölmargir íbúar Gasastrandarinnar hafa flúið til Rafah á undanförnum mánuðum.
Alls hafa um 32 þúsund Palestínubúar verið drepnir í átökunum samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Tveir þriðju þeirra látnu eru konur og börn samkvæmt stofnuninni. Stofnunin gerir ekki greinarmun á almennum borgurum og bardagamönnum.
Talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins segist ákvörðunina um hjásetu ekki marka stefnubreytingu hjá ríkisstjórninni. Ályktunin fæli í sér að það að gíslunum yrði sleppt væri skilyrði fyrir vopnahléi. Ástæðan fyrir því að Bandaríkin hefðu setið hjá en ekki greitt atkvæði með tillögunni væri að Hamas-samtökin voru ekki fordæmd í ályktuninni.
Eins og fram kemur í frétt AP hefur spennan milli Bandaríkjamanna og Ísrael aukist töluvert vegna áðurnefnds mannfalls og takmarka á mannúðaraðstoð til Palestínumanna á Gasaströndinni. Þá hafa ráðamenn ríkjanna einnig deilt um höfnun Netanjahús á ríki fyrir Palestínumenn og vegna tíðs ofbeldis landtökumanna í garð Palestínumanna á Vesturbakkanum.
Það gerði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings og bandamaður Bidens, kallaði nýverið eftir því að Ísraelar héldu kosningar og sagði Netanjahú ekki hafa hag ríkisins í huga. Biden gaf í kjölfarið í skyn að hann væri sammála.