Vladimír Pútín vann yfirburðasigur í forsetakosningunum eins og búist var við. Hann hlaut um 87 prósent atvkæða og tryggði sér þar með fimmta kjörtímabilið. Hann mun að öllu óbreyttu sitja í embætti til árs 2030.
Utanríkisráðherrar í Evrópusambandinu hittust í Brussel í dag, meðal annars til þess að samþykkja refsiaðgerðir á hendur einstaklingum sem komu að máli stjórnarandstöðumannsins Alexei Navalní, sem lést fyrr á árinu í fangelsi Rússa. Ráðherrarnir vísuðu niðurstöðum kosninganna á bug.
„Kosningarnar í Rússlandi voru kosningar án vals,“ sagði Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands á fundinum.
David Cameron utanríkisráðherra Bretland sagði niðurstöðurnar undirstrika hve mikil kúgun ríkir í landinu. „Pútín drepur pólitíska andstæðinga sína, stjórnar fjölmiðlunum, og krýnir sjálfan sig síðar sem sigurvegara. Það er ekki lýðræði.“
Þá fordæmdu ráðherrarnir þá staðreynd að kjörstaðir voru staðsettir á hernumdum svæðum Rússa í Úkraínu.
Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu sagði ekkert lögmæti í kosningunum. „Það er ljóst að þessi stjórnmálamaður er einfaldlega sjúkur í vald og að hann er að gera allt sem í hans valdi stendur til að fá að ráða þar sem hann á eftir ólifað,“ sagði Selenskí.
Reuters hefur eftir talsmanni hvíta hússins að kosningarnar hafi augljóslega hvorki verið frjálsar né sanngjarnar.
Í sömu andrá og leiðtogar vestrænu ríkjanna fordæmdu sigur Pútíns óskuðu leiðtogar hinu megin á hnettinum honum til hamingju.
Xi Jinping forseti Kína sendi honum hamingjuóskir og hét áframhaldandi náins samstarfs Peking og Moskvu. Samningur um samstarfið var gerður í byrjun ársins 2022, skömmu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu.
Narendra Modi forsætisráðherra Indlands óskaði honum sömuleiðis til hamingju og sagðist hlakka til áframhaldandi samstarfs Nýju Delí og Mosku.
Indland, Kína og Rússland eru öll aðildarríki í BRICS-bandalaginu svokallaða, sem er nokkurs konar efnahagsbandalag milli tíu ríkja sem staðsett eru í Asíu, Afríku, Evrópu og Suður-Ameríku.
Kim Jong Un einræðisherra Norður-Kóreu og Ebrahim Raisi forseti Íran óskuðu Pútín að auki til hamingju. Ríkin tvö hafa verið grunuð um að sjá Rússlandi fyrir vopnum í stríðinu gegn Úkraínu.