Dagur og hans nýju lærisveinar fögnuðu 35-29 sigri og eru komnir langleiðina inn á ÓL í París í sumar. Þeir mæta Þýskalandi á morgun og loks Alsír, en tvö lið komast upp úr riðlinum og á leikana.
Þó að aðeins tvær vikur séu síðan að Dagur tók við króatíska liðinu þá er hann samt nú þegar búinn að læra króatíska þjóðsönginn. Um þetta fjallar króatíski miðillinn 24sata og segir að Dagur hafi sungið hvert orð fyrir leikinn við Austurríki í gær, með hönd á hjarta, rétt eins og aðrir í þjálfarateymi og liði Króatíu.
Eftir sönginn var Degi fagnað af félaga sínum og aðstoðarþjálfara, Denis Spoljaric, sem 24sata segir að hafi sennilega hjálpað honum að læra þjóðsönginn. Dagur eigi engu að síður hrós skilið og hafi þarna breyst úr Sigurðssyni í Sigurdssonić, í meiri takti við króatíska nafnahefð.
Dagur hefur ekki bara sjálfur lært króatísku heldur einnig kennt lærisveinum sínum íslensku, eða að minnsta kosti íslenska orðið „berjast“.
Og leikmenn hans börðust allt til enda gegn Austurríki. Dagur sá jafnframt til þess með því að taka leikhlé þegar Króatar voru fimm mörkum yfir, og skammt eftir, til að ítreka að markmiðið væri 6-7 marka sigur. Það ætti að veita öryggi gagnvart því ef Króatía, Þýskaland og Austurríki enda öll þrjú jöfn að stigum, því þá ræður innbyrðis markatala því hvert liðanna situr eftir.