Réttarhöld áttu að hefjast 25. mars næstkomandi með vali á kviðdómi á Manhattan í New York. Málið er eitt fjögurra, sem höfðað er af hinu opinbera gegn Trump, en þessa dagana er skjalamálið svokallaða til meðferðar í Flórída. Þar keppast lögmenn Trumps við að sannfæra dómara að hann hafi ekki brotið lög þegar hann tók opinber gögn og leynileg skjöl með sér úr Hvíta húsinu.
Embætti héraðssaksóknara á Manhattan lýsti því í bréfi, sem sent var dómstólum í dag, að það væri tilbúið til að fresta málaferlunum um 30 daga. Það væri vegna þess að embættinu hafi nú borist frá ríkissaksóknara gagnpakki, sem teldi um 31 þúsund blaðsíður, og ætti von á meiru í næstu viku.
„Þessi gögn virðast innihalda upplýsingar sem varða málið, þar á meðal upplýsingar sem héraðssaksóknari óskaði eftir frá skrifstofu ríkissaksóknara fyrir meira en ári síðan og ríkissaksóknari hefur hingað til neitað að afhenda,“ segir í bréfinu.
Lögmenn Trumps hafa óskað eftir því að réttarhöldum verði frestað um annað hvort níutíu daga eða þá að ákæra veðri látin niður falla, og vísað til þess að saksóknari hafi ekki deilt þeim gögnum, sem hann hefur undir höndum, samkvæmt bókarinnar staf. Saksóknarar hafa slegið þessar kröfur út af borðinu og vísað til þess að níutíu dagar séu yfirdrifinn tími.
Málið snýst um vitnisburð Michaels Cohen, fyrrverandi lögmanns Trumps, um að Trump hafi leiðbeint honum að greiða klámmyndastjörnunni Stormy Daniels meira en 130 þúsund Bandaríkjadali, sem jafngildir um 18 milljónum króna. Ástæða greiðslunnar er sögð til þess að Daniels myndi í aðdraganda forsetakosninganna 2016 þegja yfir kynferðislegu sambandi þeirra Trumps, sem hún segist hafa átt við hann meira en áratug áður. Þá er Trump jafnframt ákærður fyrir að hafa flokkað greiðslurnar sem greiðslur til Cohen fyrir lögfræðiaðstoð.
Donald Trump hefur verið ákærður fjórum sinnum.
Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur ákært Trump í tveimur málum. Annað þeirra snýr að viðleitni hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 á landsvísu. Réttarhöldin áttu að hefjast 4. mars en hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Hitt snýr að opinberum gögnum og leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu þegar hann flutti til Flórída og neitaði að afhenta. Réttarhöldin eiga að hefjast í maí.
Hann hefur einnig verið ákærður í New York fyrir brot á lögum um kosningar vegna þagnargreiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Réttarhöldin eiga að hefjast 25. mars.
Trump hefur þar að auki verið ákærður í Georgíu og fyrir að reyna að snúa úrslitum kosninganna þar. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin í Georgíu eiga að hefjast en búið er að ákveða að sýnt verði frá þeim í beinni útsendingu.