Í Bítinu á Bylgjunni ræddi Sigríður um kjaramálin, en þar sagði hún þá áttatíu milljarða sem stjórnvöld ætla að koma með inn í samningana á næstu fjóru árum vera sömu upphæð og voru setta í lífskjarasamningana.
„Ef við tökum þessa upphæð og setjum í samhengi við það sem er undir. Ef við horfum á staðgreiðsluskyld laun, bæði á almenna og opinbera markaðinum, þá eru þau tæplega tvö þúsund milljarðar á ári. Þannig að yfir fjögurra ára tímabil þá eru þetta átta þúsund milljarðar sem eru undir. Þannig ef við setjum aðkomu stjórnvalda í samhengi við þessar tölur, þá áttar maður sig á því hvert stóra verkefnið er, sem er að semja um launahækkanir sem er innistæða fyrir.“
Sigríður segir mikilvægt að hafa í huga að þegar stjórnvöld stígi inn í samninga að þá sé það gert í lýðræðislegu umboði, með stefnu flokka sinna að leiðarljósi,
„Þar sem að ríkið hefur ákveðið að koma inn í gerð kjarasamninga, þá skiptir mjög miklu máli að stjórnvöld styðji áfram við markmið samningana og gæti þess að því að forgangsraða í þágu þeirra aðgerða sem þau hafa tekið ákvarðanir um: Að það eigi alls ekki að fara í einhverskonar skattahækkanir eða lántöku til þess að gera þetta.“
Segir búið að ganga frá ákvæðunum sem VR var ósátt með
Í dag hefja SA viðræður við VR, sem kleif sig út úr Breiðfylkingunni um miðjan febrúar. Sigríður segir að ástæðan sem VR hafi gefið út á sínum tíma hafi, að þeirra eigin sögn verið að félagið hafi ekki getað sætt sig við forsenduákvæði samninganna sem þeim var boðið.
„En þá munaði 0,23 prósent á milli okkar og þeirra. Eins og staðan er akkúrat núna er í rauninni búið að ganga frá þessum forsenduákvæðum, og þessari launastefnu. Það stendur auðvitað VR til boða,“ segir Sigríður sem bætir við að ekki sé búið að semja um ákveðin sérmál sem varði félagsfólk VR.
Hún segir að SA muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ganga frá þeim málum.