Kröfugerðin hefur vakið mikla reiði en í henni er meðal annars gerð krafa til hluta Heimaeyjar og nær allra eyja og skerja á Breiðafirði, svo eitthvað sé nefnt. Sönnunarbyrðin er lögð á eigendur umræddra eiga, sem þurfa að gera mótkröfu og sanna eignarhald sitt.
Krafan til umrædds „hólma“ kemur þó sérstakleg á óvart en um er að ræða ellefu hektara tún í miðjum Norðurárdal í Borgarfirði.
„Þetta er eins fáránlegt og mest má vera. Það var ekki annað en hægt að hlæja í fyrstu en svo er ég bara fjúkandi reið yfir því að svona mistök séu gerð,“ hefur Morgunblaðið eftir Þórhildi Þorsteinsdóttir bóndi á Brekku í Borgarfirði.
Hún segir ríkið ekki aðeins hafa gert kröfu um umrætt tún, sem ber heitið Kerlingarhólmi, heldur einnig annað tún sem ber heitið Hólsey og er enn lengra inni í dal.
„Nú er það svo að ríkið er búið að lýsa kröfu í þennan túnbleðil okkar. Ef kröfugerðin í þennan ágæta hólma er lesin þá geta allir sem eru svona sæmilega viti bornir og þokkalega lesandi séð að hann er ekki nálægt neinu fjöruborði og það gætir alls ekki neinna sjávarfalla. Vissulega getur Norðurá verið stórstreymis fljót stundum en fjandinn hafi það. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?“ spyr Þórhildur á Facebook.
Morgunblaðið segir málið í skoðun í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.