Samkvæmt frumvarpinu, sem sjá má hér á vef Alþingis, mun Þórdís einnig geta endurlánað allt að 12,5 milljörðum til eignaumsýslufélags sem koma á á fót vegna kaupa á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ.
Eignaumsýslufélag þetta mun fá það hlutverk að „annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar ásamt því að leggja félaginu til nauðsynlegt hlutafé til að það geti staðið undir þeim kaupum.“
Sjá einnig: Vonar að frumvarp um húsakaup fljúgi í gegn
Þá segir í inngangi fjáraukalagafrumvarpsins að markmið þess sé að verja fjárhag og velferð íbúa Grindavíkurbæjar og gefa einstaklingum kost á að losa sig undan þeirri áhættu sem fylgir eignarhaldi á íbúðarhúsnæði í bænum.
Þetta er annað fjáraukalagafrumvarp sem lagt hefur verið fram á þessu ári en bæði eru til komin vegna jarðhræringanna á Reykjanesi.