Laugardaginn 8. júlí síðastliðinn kom Askur Bárðdal Laufeyjarson að tíu hundum sínum dauðum í hundagerði á sveitabænum Engihlíð í Norðurdal í Breiðdal, upp af Breiðdalsvík á Austfjörðum.
Askur sagði í samtali við Vísi á sínum tíma að hann hafi ekki fundið neinar vísbendingar um hvað hefði getað valdið dauða allra tíu hundanna samtímis.
„Það voru engir sjáanlegir áverkar. Ég þreifaði sjálfur á hundunum og fór svo út um allt gerðið í leit að einhverju sem gæti mögulega hafa orðið þeim að bana en fann ekkert,“ sagði Askur.
Fyrst til MAST og svo til lögreglu
Hundadauðinn fór upphaflega á borð Matvælastofnunar. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir MAST, sagði í samtali við Vísi í lok júlí síðastliðins að málið væri einstakt og stofnunin botnaði ekkert í því.
Tveir hundanna hafi verið sendir í krufningu á tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum.
„Það er enn þá verið að bíða eftir frekari niðurstöðum úr krufningu. Þetta fór í eiturefnagreiningu og það tekur einhverjar vikur. Þannig þetta fór ekki lengra af okkar hálfu og við vísuðum þessu til lögreglu,“ sagði Sigurborg.
Rannsókn lögreglu rann út í sandinn
Í svari Lögreglunnar á Austurlandi við fyrirspurn Vísis segir að málið hafi verið sent lögreglu eftir að eiturefnagreining skilaði engum vísbendingum um hvað varð hundunum að aldurtila.
Í kjölfarið hafi umhverfi hundanna meðal annars verið skoðað, veðurfar á þeim tíma sem atburðurinn varð og fleira sem gæti skýrt dauða tíu hunda á sama tíma.
Þá hafi og verið rætt við fólk sem mögulega gæti haft vitneskju um málsatvik. Ekkert hafi þar komið fram sem varpað gæti ljósi á hvað gerðist eða af hvaða völdum. Rannsókn málsins hafi því verið hætt. Komi ný gögn fram í málinu sé þó unnt að taka rannsókn þess upp að nýju.