Fjölmiðlamaðurinn Hjörvar Hafliðason greindi fyrstur frá því á X-síðu sinni, betur þekkt sem Twitter, að Breiðablik hafi boðið í Aron.
Mjög áhugaverðar fréttir úr Bestu deildinni. Blikar hafa lagt fram tilboð í Aron Jóhannsson einn besta leikmann deildarinnar. Þetta er spennandi og miðað við það sem maður heyrir þá er Aron mjög opinn fyrir þvi að skipta úr Val í Breiðablik. pic.twitter.com/9ga7qCyfT1
— Hjörvar Hafliðason (@hjorvarhaflida) February 5, 2024
Nú hefur Fótbolti.net fengið staðfest að Breiðablik hafi í raun boðið í leikmanninn og að Valur hafi hafnað tilboðinu.
Hinn 33 ára gamli Aron er að mestu uppalinn hjá Fjölni hér á landi en lék með Blikum sumarið 2005. Hann lék svo sem atvinnumaður í Danmörku, Hollandi, Þýskalandi, Svíþjóð og Póllandi frá 2010 til 2021.
Athygli vakti þegar Aron valdi að spila fyrir landslið Bandaríkjanna en hann er fæddur þar í landi. Á hann að baki 19 leiki fyrir Bandaríkin, þar á meðal leik á HM 2014.
Aron hefur verið í lykilhlutverki hjá Val síðan hann gekk í raðir félagsins. Liðið endaði í 2. sæti á síðustu leiktíð á meðan Blikar – sem urðu Íslandsmeistarar 2022 – enduðu í 4. sæti.
Samningur Arons rennur út að tímabilinu loknu sem þýðir að hann getur samið við hvaða félag sem á svipuðum tíma og Besta deildin fer á fleygiferð.
Fréttin hefur verið uppfærð.