„Ég fer eins og farfuglarnir og hvalirnir suður á bóginn, þegar tekur að kólna og dimma heima á Íslandi. En ég kem alltaf heim aftur á vorin. Lífið í Rio er mjög þægilegt, en ég er auðvitað umfram allt Íslendingur, með djúpar rætur heima. En stundum er ekki nóg að vera með rætur, það þarf líka að vera með vængi,“ segir Hannes í samtali við Vísi.
Afmælisfögnuður í sundlauginni
Hannes hefur deilt fjölda mynda frá ferðalaginu á Instagram. Meðal annars af vinum sínum, Natan Reis og Victor Vasconcelos. Natan kemur frá Salvador er búsettur í Rio de Janeiro. Hann stundar nám í leiklist, píanóleik og ensku. Victor útskrifaðist nýverið sem flugþjónn.

Á dögunum fögnuðu félagarnir afmælisdegi Natans í sundlauginni á lúxus-hótelinu Fasano með stórbrotnu útsýni yfir hafið.

Hannes nýtur lífsins í blíðunni í Brasilíu en snýr til Íslands með hækkandi sól.