Hinn margreyndi Rivers hefur verið ráðinn þjálfari Milwaukee en hann tekur við starfinu af Adrian Griffin sem var rekinn í síðustu viku. Þjálfaramál Tarfanna verða til umræðu í Lögmáli leiksins á Stöð 2 Sport 2 í kvöld.
„Þetta gigg öskrar á Doc Rivers, akkúrat núna en þetta er ekki til langframa. Mér finnst ótrúlegt að þeir hafi ekki ráðið Nick Nurse, ef það stóð til boða,“ sagði Hörður Unnsteinsson og vísaði til mannsins sem gerði Toronto Raptors að NBA-meisturum fyrir fimm árum.
Kjartan Atli Kjartansson skaut þá inn í að Giannis hefði ekki viljað fá Nurse til að taka við Milwaukee.
„Ég held að Giannis sé orðinn vanur [Mike] Budenholzer taktíkinni, að gera alltaf eins, þótt hann hafi rekið hann. Griffin breytti of miklu en Rivers á að breyta til baka og ef við erum í einhverjum líkingum er Nick Nurse brjálaður vísindamaður sem prófar nítján varnarafbrigði í sama leiknum,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson.
„Ég held að Giannis vilji alltaf gera eins. Ég held að þetta sé hjónaband í himnaríki þangað til þeir detta út í úrslitakeppninni þegar þeir bregðast ekkert við.“
Lögmál leiksins verður á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20:00 í kvöld.