Fjórir einstaklingar fundust látnir í húsi í sveitarfélaginu Nes, norðaustur af Ósló klukkan 11:15 að staðartíma í dag. Lögregla hóf í kjölfarið rannsókn en samkvæmt upplýsingum var húsið reykfyllt þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Norski fréttamiðillinn VG hefur nú upplýsingar um að þau látnu séu eldri maður, tvær dætur hans á þrítugs- og fertugsaldri, og barnabarn hans.
Grete Lien Meltid, rannsóknarlögregluþjónn, gat ekki staðfest tengsl hinna látnu en sagði að um tvær konur, barn og eldri mann ræddi.
Þá sagði Cecilie Lilaas-Skari, lögreglukona, á blaðamannafundi í dag að ein þeirra látnu væri starfsmaður lögreglunnar í Eidsvoll.
„Eins og staðan er núna erum við enn á frumstigi málsins. Og samkvæmt þeim niðurstöðum sem við höfum komist að virðist meintur gerandi vera látinn,“ segir Lilaas-Skari við VG. „Það er of snemmt að fullyrða, en það virðist sem við séum að horfa á bæði manndráp og sjálfsvíg.“