„Ég held að þessi maður sé sá eini sem getur leitt okkur í sannleikann um hvað gerðist“ Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 22. janúar 2024 07:01 Hvarf Valgeirs Víðissonar er eitt umtalaðasta og dularfyllsta lögreglumál okkar tíma. Rannsóknin stóð yfir árum saman og enn í dag er málið óupplýst. Samsett „Ég man hreinlega ekki allan fjöldann af stöðum þar sem líkið á að hafa verið,“ segir Hörður Jóhannesson fyrrum rannsóknarlögreglumaður en hann er einn af þeim sem kom að rannsókninni á hvarfi Valgeirs Víðissonar á sínum tíma. Í sumar eru liðin þrjátíu ár síðan Valgeir Víðisson hvarf sporlaust af heimili sínu á Laugavegi. Ekkert hefur spurst til hans síðan. Enn í dag er málið óupplýst. Hvarfið er eitt umtalaðasta og dularfyllsta lögreglumál okkar tíma og rannsóknin stóð yfir árum saman. Um er að ræða eina umfangsmestu rannsókn á sakamáli sem átt hefur sér stað hér á landi. Ótal flökkusögur urðu til og lögreglu bárust fjöldi ábendinga og samsæriskenninga í gegnum árin. En allt kom fyrir ekki. Hvort Valgeir var ráðinn bani eða hvort að eitthvað annað geti skýrt hvarf hans er enn ekki sannað. Í nýjasta þættinum af Eftirmálum fara fyrrum fréttakonurnar Nadine Guðrún Yaghi og Þórhildur Þorkelsdóttir ofan í saumana á hvarfi Valgeirs og ræða við Hörð Jóhannesson fyrrum rannsóknarlögreglumann sem rifjar upp rannsóknina og fer yfir hvað verður um mál sem lögreglu tekst ekki að upplýsa. Um er að ræða annan þáttinn af sex í nýrri seríu af þessum vinsælu hlaðvarpsþáttum. Klippa: Hvarf Valgeirs Víðissonar Leituðu allra mögulegra leiða Þann 13.júlí árið 1994 birtist fyrsta fréttin af hvarfi Valgeirs Víðissonar. Þess ber að geta að Valgeir hvarf af heimili sínu þann 19. júní sama ár og í millitíðinni lét faðir hans lögreglu vita að sonur hans væri horfinn. Það því leið rúmur mánuður þar til greint var frá hvarfi hans í fjölmiðlum. Frétt DV hljóðaði svo: „Lögregla og hjálpar- og björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa leitað að Valgeiri Víðissyni, 30 ára Reykvíkingi, síðan 30. júní sl. án árangurs. Valgeir fór frá heimili sínu við Laugaveg aðfaranótt 19. júní. Talið er að hann hafi verið á dökkleitu reiðhjóli. Valgeir er lágvaxinn, grannur og með skollitað hár. Hann var klæddur í ljósbláar gallabuxur, brúnan leðurjakka, köflótta skyrtu og í brún, reimuð stígvél. Þeir sem gefið geta upplýsingar um Valgeir í sambandi við hvarf hans eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í Reykjavík." Hörður Jóhannesson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og aðstoðarlögreglustjóri rifjar upp hvarf Valgeirs í þætti Eftirmála en hann var einn af þeim sem sinntu rannsókninni á málinu, sem stóð yfir í mörg ár. „Það sem gerir málið sérstakt er að það var lifandi í svo mörg ár. Það voru alltaf að koma upplýsingar og ábendingar, og lögreglan var alltaf tilbúin að hlaupa til að reyna að elta hitt og þetta, í því skyni að reyna að komast að því hvað hefði raunverulega gerst.“ Hörður Jóhannesson fyrrum rannsóknarlögreglumaður er einn af þeim sem kom að rannsókninni á hvarfi Valgeirs Víðissonar á sínum tíma.Aðsend Á þessum tíma var skipulagið á lögreglunni með þeim hætti að embætti rannsóknarlögreglu ríkisins sá um að rannsaka alvarlegri sakamál á meðan önnur mál voru rannsökuð af staðarlögreglu. Fyrstu vikurnar eftir að Valgeir hvarf sá lögreglan í Reykjavík um að rannsaka hvarfið og að sögn Harðar gerði lögreglan „allt sem mögulegt var“ og leitaði allra mögulegra leiða til að fá botn í málið. „En fljótlega virtist lögreglan í Reykjavík átta sig á að hugsanlega væri eitthvað saknæmt við þetta. Þetta var mjög sérstakt, það verður að segjast, af því að bakgrunnur hins horfna var sá sem hann var, og fljótlega fóru að koma einhverjar kjaftasögur,“ segir Hörður jafnframt og á þar við tengsl Valgeirs inn í fíkniefnaheiminn. Þar af leiðandi tók fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík þátt í rannsókninni. Lögreglan tók við endalausum ábendingum og sögum frá einstaklingum sem töldu sig vita hvað hefði átt sér stað. „Með tímanum voru fjölmiðlar alltaf að taka þetta upp aftur og aftur og aftur. Þetta upplýstist ekki, og lengi vel hélt það lífinu í þessum sögum.“ Ekkert venjulegt mannshvarf Líkt og fyrr segir hafði Valgeir verið tengdur inn í fíkniefnaheiminn. Hann hafði fengið dóma fyrir minniháttar brot og fljótlega fóru að birtast fyrirsagnir í blöðum um að Valgeiri hefði verið hótað lífláti af aðilum í fíkniefnaheiminum vegna skulda. Þá fóru að heyrast sögur um að Valgeir hefði sést hér og þar um bæinn eftir að hann hvarf. Hörður bendir á að í gegnum tíðina hafi fjölmörg mannshvarfsmál komið upp hér á landi en það sé mismunandi hvort málin rati í fréttir eða ekki. „Það er vitað mál að það hafa horfið hér fjöldi manns í gegnum tíðina, og þá er það gjarnan þannig að fólk stendur bara upp frá borðinu og fer,“ segir hann. „En þegar menn fóru að rýna ofan í þetta, og lögreglan átti mjög gott samstarf við föður hans til dæmis, sem vissi heilmikið um hann í hvaða kreðsum hann hafði verið, þá voru alltaf að koma meira og meira af smáatriðum sem bentu til þess að þetta var eitthvað meira en bara „venjulegt“ mannshvarf.“ Að sögn Harðar hafði Valgeir neytt og selt fíkniefna, hann skuldaði mönnum og menn skulduðu honum. Lögreglan kortlagði eins og hægt var síðustu dagana fyrir hvarf Valgeirs; hverja hann hafði umgengst. Sum þeirra nafna áttu eftir að koma upp ítrekað í þeim kjaftasögum og ábendingum sem bárust lögreglu í tengslum við rannsóknina næstu árin. Fóru ofan í rotþró Þegar rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður, þremur árum eftir hvarf Valgeirs, var rannsóknin á hvarfi hans eitt af þeim málum sem voru send aftur til lögreglunnar í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að reyna allt, og tala við fjölda manns var málið enn óupplýst. Á sama tíma héldu áfram að berast ábendingar til lögreglunnar. Fram kemur í þættinum að Valgeir hafi alltaf verið með svokallað fílófax á sér, símanúmerabók og dagbók. Faðir Valgeirs sagði í viðtali í fréttaþætti á þessum tíma að fílófaxið hefði horfið af heimili Valgeirs eftir að hann hvarf, og því var svo skilað til hans, föðurins, seinna. Athygli vakti að búið var að fjarlægja úr bókinni dagana fyrir hvarfið og daginn sem Valgeir hvarf. „Eftir tiltölulega stuttan tíma þá erum við bara stopp. Það var ekkert hægt að gera meira,“ segir Hörður og bætir við að lögreglan hafi engu að síður hlaupið eftir allskyns ábendingum. Gallinn var sá að margar af þessum ábendingum voru byggðar á mjög veikum grunni. „Við ætluðum einu sinni að fara í aðgerð sem hefði kostað það að raska hverasvæði. Og við vorum komnir með náttúrufræðinga, og fengum að vita hvað væri hugsanlega hægt að gera. En niðurstaðan var sú að gera það ekki, af því þetta var allt á svo veikum grunni,“ segir Hörður og rifjar upp aðra ábendingu, sem leiddi til þess að hann og annar rannsóknarlögreglumaður fóru ofan í rotþró við sumarbústað á Suðurlandi, eftir að ábending barst um að lík Valgeirs væri falið þar. Ný vending Fram kemur að eftir marga mánaða umfangsmikla rannsókn hafi málið farið að lognast út af. Á sama tíma var Víðir, faðir Valgeirs óþreytandi í sinni baráttu fyrir því að komast að því sanna og beitti lögregluna miklum þrýstingi. Sagðist hann meðal annars ætla að rannsaka málið sjálfur ef lögreglan myndi ekki gera það. Helga Arnardóttir fjölmiðlakona gerði sjónvarpsþátt um hvarf Valgeirs á sínum tíma þar sem rætt var við Víði. Þar lýsti hann málinu sem „martröð.“ Þess ber að geta að Valgeir átti einnig barnsmóður, ungan son og stjúpdóttur og skildi eftir sig fjölda aðstandenda sem hafa aldrei fengið að vita um afdrif hans. Árið 2000, sex árum eftir hvarfið var haldin minningarathöfn um Valgeir í Grafarvogskirkju og birtar minningargreinar um hann. Í sjónvarpsþættinum Mannshvörf á Íslandi sjást myndir úr jarðarförinni og þar er einnig viðtal við Víði föður Valgeirs, sem segist hafa fullvissu fyrir því að sonur hans hafi verið myrtur. Stuttu eftir þessa minningarathöfn dró hins vegar til tíðinda. Lögreglu bárust nýjar upplýsingar og í kjölfarið var rannsóknin á hvarfi Valgeirs opnuð aftur. Þetta var í kringum aldamótin. „Menn vildi náttúrulega gera allt sem hægt var til að upplýsa málið. En sumar ábendingarnar voru svo hæpnar. Þetta var allt frá því að vera nafnlausar ábendingar, upp í ábendingar þar sem einhver þóttist vita allt, og allt þar á milli,“ segir Hörður. En ein ábending sem lögreglu barst á þessum tíma reyndist vera nógu trúverðug til að ástæða þótti til að rannsaka hana nánar. Íslendingur, sem á þessum tíma sat í fangelsi í Hollandi, var sagður búa yfir töluverðum upplýsingum um hvarf Valgeirs. Í kjölfarið fór Hörður til Hollands og ræddi við manninn, sem reyndist vera lykilvitni í málinu. „Við förum þangað, og fáum alveg skýra frásögn um það sem hafði gerst, sem hann hafði þá nánast frá fyrstu hendi. Það var lýsing á því hvernig þetta hafði gerst, að Valgeir hefði verið kallaður til fundar við tvo menn á tilteknum stað. Það snerist um einhverskonar uppgjör. Ofbeldi var beitt, og það fór úr böndunum, þannig að það leiddi hann til dauða og síðan voru gerðar ráðstafanir til að koma líkinu fyrir.“ Neituðu öllu Þrátt fyrir þennan vitnisburð um atburðarásina, og að þessir tveir menn væru grunaðir um að hafa átt þátt í hvarfi Valgeirs, þá voru engin sönnunargögn; ekkert lík og enginn vettvangur. Annar mannanna reyndist vera í fangelsi í útlöndum og var hann seinna framseldur til Íslands. „Svo kom í ljós, þegar mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald um vorið 2001 og voru yfirheyrðir, að við vorum engu nær. Við höfðum ekkert meira. Það var ekki hægt að sleppa því að tala við mennina og láta þá vita hvaða upplýsingar við höfðum. En það náttúrlega blasir við að þeim var alveg í lófa lagið að neita öllu. Sem þeir gerðu,“ segir Hörður. Að sögn fyrrnefnds lykilvitnis höfðu mennirnir tveir, sem báðir voru góðkunningjar lögreglunnar, hitt Valgeir í tengslum við viðskipti með fíkniefni. Fór fundurinn fram í bílageymslu. Þar áttu mennirnir tveir að hafa „tuskað hann til“ og það síðan farið úr böndunum. Að sögn vitnisins var líki Valgeirs komið fyrir í bíl og ekið með það á ókunnan stað. Bílnum var seinna meir fargað, ásamt öllum hugsanlegum sönnunargögnum. Mennirnir tveir, þeir Ársæll Snorrason og Engilbert Runólfsson fengu stöðu grunaðs manns. Þeir neituðu staðfastlega sök og var á endanum sleppt. Síðar meir voru þeim dæmdar bætur frá íslenska ríkinu vegna gæsluvarðhalds sem þeir voru látnir sitja í tengslum við rannsóknina. Fyrrnefnt lykilvitni, og Ársæll Snorrason eru í dag báðir látnir. Engilbert Runólfsson er hins vegar enn á lífi. Eins og Hörður orðar það: „Eftir stendur að annar þeirra sem var handtekinn, hann er lifandi enn. Og hann er náttúrulega maðurinn sem veit það hvað er rétt og rangt í þessu.“ Þegar Hörður er spurður hvort hann haldi að einhver þarna úti sé með svörin svarar hann: „Já, ég verð að vera sjálfum mér samkvæmur með það. Ég held að þessi maður sem var bendlaður við þetta, hann er sá eini sem getur leitt okkur í sannleikann um hvað gerðist.“ Taldi sig vita hverjir frömdu verknaðinn Víðir faðir Valgeirs lést árið 2010. Líkt og fyrr segir barðist hann ævina á enda fyrir því að ná fram réttlæti fyrir son sinn. Í þætti Eftirmála er vitnað í viðtal sem tekið var við Víði í ágúst 2000. Fyrirsögnin er: „Tel mig vita hverjir frömdu verknaðinn.“ Í viðtalinu segir Víðir að hann sé búinn að vera meira og minna að grennslast fyrir um afdrif sonar síns öll þau sex ár sem liðin eru frá hvarfi hans. „Ég ann mér ekki hvíldar fyrr en þetta mál skýrist. Þetta hefur tekið mikið á þau sex ár sem liðin eru frá því að Valgeir hvarf. Ég hef stöðugt unnið að því, ekki síst með lögreglunni, að fá hið rétta fram. Ég tel mig vita hverjir frömdu verknaðinn, þau atriði eru í rannsókn hjá lögreglunni,“ segir Víðir og bætir við á öðrum stað: „En ég sef ekki og verð ekki rólegur fyrr en þetta skýrist.“ Barnsmóðir Valgeirs steig fram árið 2011 og krafðist þess að fá fund með þáverandi dómsmálaráðherra til þess að rannsóknin yrði tekin upp aftur. Þá sagðist hún hafa upplýsingar um að Valgeir hefði verið myrtur. Óðinn sonur Valgeirs hélt myndlistarsýningu í sumar til heiðurs pabba sínum. Hænkóson, hét sýningin, en Heinkó var verslun með mótorhjólafatnað sem Valgeir rak. Hörður er að lokum spurður hvort hann trúi því að það muni einhvern tímann koma í ljós hver afdrif Valgeirs Víðissonar voru. „Maður kannski vonar það. En það er ekki raunhægt að ætla það, úr því sem komið er. En maður skildi aldrei segja aldrei. Kannski er eitthvað í þessu máli sem við vitum ekki um.“ Eftirmál Reykjavík Lögreglumál Mest lesið Sakleysi dætranna hafi gufað upp Innlent Foreldrar sextíu barna vilji leikskólastjórann burt Innlent Sindri grunaður um fjárdrátt Innlent Hrikalega spenntur að spreyta sig á nýjum vettvangi Innlent Ellert B. Schram er fallinn frá Innlent „Ég get horft í augun á ykkur“ Innlent Hús varð fyrir tjóni vegna eldingar Innlent Lögbann sett á tilskipun Trumps Erlent Fimm ára leyfi frá borginni til að fara á þing Innlent Grjóthörð sparnaðarráð til Kristrúnar með ástarkveðju frá FA Innlent Fleiri fréttir Svarar gagnrýni á að Listaháskólinn útiloki ákveðna hópa Íhugar formannsframboð Lögðu fram tilboð sem var ekki svarað Fjórir fluttir með þyrlu eftir árekstur Guðrún íhugar framboð og Guinness-æði skekur íslenska djammið Lýsa yfir miklum vonbrigðum með stöðu viðræðna „Ég get horft í augun á ykkur“ Eldur í bíl í Strýtuseli Valt inn á byggingarsvæði eftir árekstur við strætó Anna, Anna og Sveinbjörn aðstoða ríkisstjórnina Hrikalega spenntur að spreyta sig á nýjum vettvangi Ellert B. Schram er fallinn frá „Það á auðvitað að fara að lögum“ Segir borgina hafa unnið að lausn mála hjá Maríuborg um nokkurt skeið Maðurinn hafi talið sig vera að fara að hitta stúlku á fermingaraldri Boða til allsherjarfundar samninganefnda Kennarasambandsins Lögregla rannsakar tálbeituaðgerð ungmenna Grjóthörð sparnaðarráð til Kristrúnar með ástarkveðju frá FA Lenti í kófi og ók í veg fyrir tvo vörubíla Óttast að íbúar utan Reykjavíkur festist í gistiskýlunum Fimm ára leyfi frá borginni til að fara á þing Foreldrar sextíu barna vilji leikskólastjórann burt Farinn af vettvangi en fannst með áverka stuttu síðar Hús varð fyrir tjóni vegna eldingar Viss um sigurinn en óviss um að komast inn á landsfundinn „Við erum algjörlega komin á endastöð“ „Enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu borgarinnar“ Staðfestir niðurfellingu rannsóknar á blaðamönnunum Áfellisdómur á stjórnsýslu borgarinnar og meintur fjárdráttur Að minnsta kosti þrettán milljónir og „einbeittur brotavilji“ Sjá meira
Hvarfið er eitt umtalaðasta og dularfyllsta lögreglumál okkar tíma og rannsóknin stóð yfir árum saman. Um er að ræða eina umfangsmestu rannsókn á sakamáli sem átt hefur sér stað hér á landi. Ótal flökkusögur urðu til og lögreglu bárust fjöldi ábendinga og samsæriskenninga í gegnum árin. En allt kom fyrir ekki. Hvort Valgeir var ráðinn bani eða hvort að eitthvað annað geti skýrt hvarf hans er enn ekki sannað. Í nýjasta þættinum af Eftirmálum fara fyrrum fréttakonurnar Nadine Guðrún Yaghi og Þórhildur Þorkelsdóttir ofan í saumana á hvarfi Valgeirs og ræða við Hörð Jóhannesson fyrrum rannsóknarlögreglumann sem rifjar upp rannsóknina og fer yfir hvað verður um mál sem lögreglu tekst ekki að upplýsa. Um er að ræða annan þáttinn af sex í nýrri seríu af þessum vinsælu hlaðvarpsþáttum. Klippa: Hvarf Valgeirs Víðissonar Leituðu allra mögulegra leiða Þann 13.júlí árið 1994 birtist fyrsta fréttin af hvarfi Valgeirs Víðissonar. Þess ber að geta að Valgeir hvarf af heimili sínu þann 19. júní sama ár og í millitíðinni lét faðir hans lögreglu vita að sonur hans væri horfinn. Það því leið rúmur mánuður þar til greint var frá hvarfi hans í fjölmiðlum. Frétt DV hljóðaði svo: „Lögregla og hjálpar- og björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa leitað að Valgeiri Víðissyni, 30 ára Reykvíkingi, síðan 30. júní sl. án árangurs. Valgeir fór frá heimili sínu við Laugaveg aðfaranótt 19. júní. Talið er að hann hafi verið á dökkleitu reiðhjóli. Valgeir er lágvaxinn, grannur og með skollitað hár. Hann var klæddur í ljósbláar gallabuxur, brúnan leðurjakka, köflótta skyrtu og í brún, reimuð stígvél. Þeir sem gefið geta upplýsingar um Valgeir í sambandi við hvarf hans eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í Reykjavík." Hörður Jóhannesson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og aðstoðarlögreglustjóri rifjar upp hvarf Valgeirs í þætti Eftirmála en hann var einn af þeim sem sinntu rannsókninni á málinu, sem stóð yfir í mörg ár. „Það sem gerir málið sérstakt er að það var lifandi í svo mörg ár. Það voru alltaf að koma upplýsingar og ábendingar, og lögreglan var alltaf tilbúin að hlaupa til að reyna að elta hitt og þetta, í því skyni að reyna að komast að því hvað hefði raunverulega gerst.“ Hörður Jóhannesson fyrrum rannsóknarlögreglumaður er einn af þeim sem kom að rannsókninni á hvarfi Valgeirs Víðissonar á sínum tíma.Aðsend Á þessum tíma var skipulagið á lögreglunni með þeim hætti að embætti rannsóknarlögreglu ríkisins sá um að rannsaka alvarlegri sakamál á meðan önnur mál voru rannsökuð af staðarlögreglu. Fyrstu vikurnar eftir að Valgeir hvarf sá lögreglan í Reykjavík um að rannsaka hvarfið og að sögn Harðar gerði lögreglan „allt sem mögulegt var“ og leitaði allra mögulegra leiða til að fá botn í málið. „En fljótlega virtist lögreglan í Reykjavík átta sig á að hugsanlega væri eitthvað saknæmt við þetta. Þetta var mjög sérstakt, það verður að segjast, af því að bakgrunnur hins horfna var sá sem hann var, og fljótlega fóru að koma einhverjar kjaftasögur,“ segir Hörður jafnframt og á þar við tengsl Valgeirs inn í fíkniefnaheiminn. Þar af leiðandi tók fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík þátt í rannsókninni. Lögreglan tók við endalausum ábendingum og sögum frá einstaklingum sem töldu sig vita hvað hefði átt sér stað. „Með tímanum voru fjölmiðlar alltaf að taka þetta upp aftur og aftur og aftur. Þetta upplýstist ekki, og lengi vel hélt það lífinu í þessum sögum.“ Ekkert venjulegt mannshvarf Líkt og fyrr segir hafði Valgeir verið tengdur inn í fíkniefnaheiminn. Hann hafði fengið dóma fyrir minniháttar brot og fljótlega fóru að birtast fyrirsagnir í blöðum um að Valgeiri hefði verið hótað lífláti af aðilum í fíkniefnaheiminum vegna skulda. Þá fóru að heyrast sögur um að Valgeir hefði sést hér og þar um bæinn eftir að hann hvarf. Hörður bendir á að í gegnum tíðina hafi fjölmörg mannshvarfsmál komið upp hér á landi en það sé mismunandi hvort málin rati í fréttir eða ekki. „Það er vitað mál að það hafa horfið hér fjöldi manns í gegnum tíðina, og þá er það gjarnan þannig að fólk stendur bara upp frá borðinu og fer,“ segir hann. „En þegar menn fóru að rýna ofan í þetta, og lögreglan átti mjög gott samstarf við föður hans til dæmis, sem vissi heilmikið um hann í hvaða kreðsum hann hafði verið, þá voru alltaf að koma meira og meira af smáatriðum sem bentu til þess að þetta var eitthvað meira en bara „venjulegt“ mannshvarf.“ Að sögn Harðar hafði Valgeir neytt og selt fíkniefna, hann skuldaði mönnum og menn skulduðu honum. Lögreglan kortlagði eins og hægt var síðustu dagana fyrir hvarf Valgeirs; hverja hann hafði umgengst. Sum þeirra nafna áttu eftir að koma upp ítrekað í þeim kjaftasögum og ábendingum sem bárust lögreglu í tengslum við rannsóknina næstu árin. Fóru ofan í rotþró Þegar rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður, þremur árum eftir hvarf Valgeirs, var rannsóknin á hvarfi hans eitt af þeim málum sem voru send aftur til lögreglunnar í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að reyna allt, og tala við fjölda manns var málið enn óupplýst. Á sama tíma héldu áfram að berast ábendingar til lögreglunnar. Fram kemur í þættinum að Valgeir hafi alltaf verið með svokallað fílófax á sér, símanúmerabók og dagbók. Faðir Valgeirs sagði í viðtali í fréttaþætti á þessum tíma að fílófaxið hefði horfið af heimili Valgeirs eftir að hann hvarf, og því var svo skilað til hans, föðurins, seinna. Athygli vakti að búið var að fjarlægja úr bókinni dagana fyrir hvarfið og daginn sem Valgeir hvarf. „Eftir tiltölulega stuttan tíma þá erum við bara stopp. Það var ekkert hægt að gera meira,“ segir Hörður og bætir við að lögreglan hafi engu að síður hlaupið eftir allskyns ábendingum. Gallinn var sá að margar af þessum ábendingum voru byggðar á mjög veikum grunni. „Við ætluðum einu sinni að fara í aðgerð sem hefði kostað það að raska hverasvæði. Og við vorum komnir með náttúrufræðinga, og fengum að vita hvað væri hugsanlega hægt að gera. En niðurstaðan var sú að gera það ekki, af því þetta var allt á svo veikum grunni,“ segir Hörður og rifjar upp aðra ábendingu, sem leiddi til þess að hann og annar rannsóknarlögreglumaður fóru ofan í rotþró við sumarbústað á Suðurlandi, eftir að ábending barst um að lík Valgeirs væri falið þar. Ný vending Fram kemur að eftir marga mánaða umfangsmikla rannsókn hafi málið farið að lognast út af. Á sama tíma var Víðir, faðir Valgeirs óþreytandi í sinni baráttu fyrir því að komast að því sanna og beitti lögregluna miklum þrýstingi. Sagðist hann meðal annars ætla að rannsaka málið sjálfur ef lögreglan myndi ekki gera það. Helga Arnardóttir fjölmiðlakona gerði sjónvarpsþátt um hvarf Valgeirs á sínum tíma þar sem rætt var við Víði. Þar lýsti hann málinu sem „martröð.“ Þess ber að geta að Valgeir átti einnig barnsmóður, ungan son og stjúpdóttur og skildi eftir sig fjölda aðstandenda sem hafa aldrei fengið að vita um afdrif hans. Árið 2000, sex árum eftir hvarfið var haldin minningarathöfn um Valgeir í Grafarvogskirkju og birtar minningargreinar um hann. Í sjónvarpsþættinum Mannshvörf á Íslandi sjást myndir úr jarðarförinni og þar er einnig viðtal við Víði föður Valgeirs, sem segist hafa fullvissu fyrir því að sonur hans hafi verið myrtur. Stuttu eftir þessa minningarathöfn dró hins vegar til tíðinda. Lögreglu bárust nýjar upplýsingar og í kjölfarið var rannsóknin á hvarfi Valgeirs opnuð aftur. Þetta var í kringum aldamótin. „Menn vildi náttúrulega gera allt sem hægt var til að upplýsa málið. En sumar ábendingarnar voru svo hæpnar. Þetta var allt frá því að vera nafnlausar ábendingar, upp í ábendingar þar sem einhver þóttist vita allt, og allt þar á milli,“ segir Hörður. En ein ábending sem lögreglu barst á þessum tíma reyndist vera nógu trúverðug til að ástæða þótti til að rannsaka hana nánar. Íslendingur, sem á þessum tíma sat í fangelsi í Hollandi, var sagður búa yfir töluverðum upplýsingum um hvarf Valgeirs. Í kjölfarið fór Hörður til Hollands og ræddi við manninn, sem reyndist vera lykilvitni í málinu. „Við förum þangað, og fáum alveg skýra frásögn um það sem hafði gerst, sem hann hafði þá nánast frá fyrstu hendi. Það var lýsing á því hvernig þetta hafði gerst, að Valgeir hefði verið kallaður til fundar við tvo menn á tilteknum stað. Það snerist um einhverskonar uppgjör. Ofbeldi var beitt, og það fór úr böndunum, þannig að það leiddi hann til dauða og síðan voru gerðar ráðstafanir til að koma líkinu fyrir.“ Neituðu öllu Þrátt fyrir þennan vitnisburð um atburðarásina, og að þessir tveir menn væru grunaðir um að hafa átt þátt í hvarfi Valgeirs, þá voru engin sönnunargögn; ekkert lík og enginn vettvangur. Annar mannanna reyndist vera í fangelsi í útlöndum og var hann seinna framseldur til Íslands. „Svo kom í ljós, þegar mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald um vorið 2001 og voru yfirheyrðir, að við vorum engu nær. Við höfðum ekkert meira. Það var ekki hægt að sleppa því að tala við mennina og láta þá vita hvaða upplýsingar við höfðum. En það náttúrlega blasir við að þeim var alveg í lófa lagið að neita öllu. Sem þeir gerðu,“ segir Hörður. Að sögn fyrrnefnds lykilvitnis höfðu mennirnir tveir, sem báðir voru góðkunningjar lögreglunnar, hitt Valgeir í tengslum við viðskipti með fíkniefni. Fór fundurinn fram í bílageymslu. Þar áttu mennirnir tveir að hafa „tuskað hann til“ og það síðan farið úr böndunum. Að sögn vitnisins var líki Valgeirs komið fyrir í bíl og ekið með það á ókunnan stað. Bílnum var seinna meir fargað, ásamt öllum hugsanlegum sönnunargögnum. Mennirnir tveir, þeir Ársæll Snorrason og Engilbert Runólfsson fengu stöðu grunaðs manns. Þeir neituðu staðfastlega sök og var á endanum sleppt. Síðar meir voru þeim dæmdar bætur frá íslenska ríkinu vegna gæsluvarðhalds sem þeir voru látnir sitja í tengslum við rannsóknina. Fyrrnefnt lykilvitni, og Ársæll Snorrason eru í dag báðir látnir. Engilbert Runólfsson er hins vegar enn á lífi. Eins og Hörður orðar það: „Eftir stendur að annar þeirra sem var handtekinn, hann er lifandi enn. Og hann er náttúrulega maðurinn sem veit það hvað er rétt og rangt í þessu.“ Þegar Hörður er spurður hvort hann haldi að einhver þarna úti sé með svörin svarar hann: „Já, ég verð að vera sjálfum mér samkvæmur með það. Ég held að þessi maður sem var bendlaður við þetta, hann er sá eini sem getur leitt okkur í sannleikann um hvað gerðist.“ Taldi sig vita hverjir frömdu verknaðinn Víðir faðir Valgeirs lést árið 2010. Líkt og fyrr segir barðist hann ævina á enda fyrir því að ná fram réttlæti fyrir son sinn. Í þætti Eftirmála er vitnað í viðtal sem tekið var við Víði í ágúst 2000. Fyrirsögnin er: „Tel mig vita hverjir frömdu verknaðinn.“ Í viðtalinu segir Víðir að hann sé búinn að vera meira og minna að grennslast fyrir um afdrif sonar síns öll þau sex ár sem liðin eru frá hvarfi hans. „Ég ann mér ekki hvíldar fyrr en þetta mál skýrist. Þetta hefur tekið mikið á þau sex ár sem liðin eru frá því að Valgeir hvarf. Ég hef stöðugt unnið að því, ekki síst með lögreglunni, að fá hið rétta fram. Ég tel mig vita hverjir frömdu verknaðinn, þau atriði eru í rannsókn hjá lögreglunni,“ segir Víðir og bætir við á öðrum stað: „En ég sef ekki og verð ekki rólegur fyrr en þetta skýrist.“ Barnsmóðir Valgeirs steig fram árið 2011 og krafðist þess að fá fund með þáverandi dómsmálaráðherra til þess að rannsóknin yrði tekin upp aftur. Þá sagðist hún hafa upplýsingar um að Valgeir hefði verið myrtur. Óðinn sonur Valgeirs hélt myndlistarsýningu í sumar til heiðurs pabba sínum. Hænkóson, hét sýningin, en Heinkó var verslun með mótorhjólafatnað sem Valgeir rak. Hörður er að lokum spurður hvort hann trúi því að það muni einhvern tímann koma í ljós hver afdrif Valgeirs Víðissonar voru. „Maður kannski vonar það. En það er ekki raunhægt að ætla það, úr því sem komið er. En maður skildi aldrei segja aldrei. Kannski er eitthvað í þessu máli sem við vitum ekki um.“
Eftirmál Reykjavík Lögreglumál Mest lesið Sakleysi dætranna hafi gufað upp Innlent Foreldrar sextíu barna vilji leikskólastjórann burt Innlent Sindri grunaður um fjárdrátt Innlent Hrikalega spenntur að spreyta sig á nýjum vettvangi Innlent Ellert B. Schram er fallinn frá Innlent „Ég get horft í augun á ykkur“ Innlent Hús varð fyrir tjóni vegna eldingar Innlent Lögbann sett á tilskipun Trumps Erlent Fimm ára leyfi frá borginni til að fara á þing Innlent Grjóthörð sparnaðarráð til Kristrúnar með ástarkveðju frá FA Innlent Fleiri fréttir Svarar gagnrýni á að Listaháskólinn útiloki ákveðna hópa Íhugar formannsframboð Lögðu fram tilboð sem var ekki svarað Fjórir fluttir með þyrlu eftir árekstur Guðrún íhugar framboð og Guinness-æði skekur íslenska djammið Lýsa yfir miklum vonbrigðum með stöðu viðræðna „Ég get horft í augun á ykkur“ Eldur í bíl í Strýtuseli Valt inn á byggingarsvæði eftir árekstur við strætó Anna, Anna og Sveinbjörn aðstoða ríkisstjórnina Hrikalega spenntur að spreyta sig á nýjum vettvangi Ellert B. Schram er fallinn frá „Það á auðvitað að fara að lögum“ Segir borgina hafa unnið að lausn mála hjá Maríuborg um nokkurt skeið Maðurinn hafi talið sig vera að fara að hitta stúlku á fermingaraldri Boða til allsherjarfundar samninganefnda Kennarasambandsins Lögregla rannsakar tálbeituaðgerð ungmenna Grjóthörð sparnaðarráð til Kristrúnar með ástarkveðju frá FA Lenti í kófi og ók í veg fyrir tvo vörubíla Óttast að íbúar utan Reykjavíkur festist í gistiskýlunum Fimm ára leyfi frá borginni til að fara á þing Foreldrar sextíu barna vilji leikskólastjórann burt Farinn af vettvangi en fannst með áverka stuttu síðar Hús varð fyrir tjóni vegna eldingar Viss um sigurinn en óviss um að komast inn á landsfundinn „Við erum algjörlega komin á endastöð“ „Enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu borgarinnar“ Staðfestir niðurfellingu rannsóknar á blaðamönnunum Áfellisdómur á stjórnsýslu borgarinnar og meintur fjárdráttur Að minnsta kosti þrettán milljónir og „einbeittur brotavilji“ Sjá meira