„Athugið að merki HSÍ og þar með talinn landsliðsbúninginn og leikmenn íklædda honum er óheimilt að nota opinberlega nema með samþykki HSÍ.“
Þannig hefst valdsmannslegt bréf frá HSÍ, með ísköldum lögfræðilegum undirtóni, til eigenda Ölvers en tilefnið er auglýsing staðarins á samfélagsmiðlum. Eigendurnir hafa verið að keyra upp stemmingu á staðnum fyrir landsleikina. Þrír æskufélagar, þeir Björn Hlynur Haraldsson, Gylfi Gylfason og Ingólfur Pétursson, eiga staðinn og þeim brá í brún við að fá bréfið.
Þeir hafa nú skipt út mynd af fjórum köppum íslenska liðsins fyrir gamla mynd af kappanum Sigurði Val Sveinssyni, Sigga Sveins, frá árinu 1981. Og hafa birt þá auglýsingu á Instagram-reikningi staðarins. Allir eru þeir Þróttarar og þeim þótti þetta rakið, Siggi að taka víti fyrir bikarmeistaralið Þróttar.

„Ölver er óheimilt að nota merki HSÍ og ljósmyndir af núverandi landsliðsmönnum Íslands,“ segir svo neðst í bréfinu áður en hrópið: „Áfram Ísland!“ kveður við.
Svo áfram sé vitnað í bréf HSÍ:
„Aðildarfélögum HSÍ er heimilt að nota merki HSÍ og þar með talinn landsliðsbúninginn og leikmenn íklædda honum á sínum miðlum til að auglýsa landsleiki eða viðburði síns félags sem tengjast handbolta.
Öðrum en samstarfsaðilum HSÍ er óheimilt að nota merki HSÍ og þar með talinn landsliðsbùninginn og leikmenn íklædda honum í markaðslegum tilgangi.
Verði aðrir aðilar en samstarfsaðilar HSÍ uppvísir að notkun vörumerkja HSÍ í markaðslegum tilgangi án heimildar áskilur HSÍ sér rétt til að senda viðkomandi aðila reikning fyrir notkun vörumerkjanna.“

Vísir náði tali af Birni Hlyni sem telur þessar athugasemdir HSÍ heldur til þess fallnar að drepa alla stemminguna fyrir landsleikjunum en hitt.
„En ég nenni ekki að standa í einhverjum stælum við HSÍ varðandi þetta,“ segir Björn Hlynur.
Hann sér bikarkeppnina þar sem Siggi Sveins og Páll Ólafs fóru á kostum í rósrauðum bjarma. En hann á erfitt með að skilja að HSÍ vilji drepa niður stemmninguna á einhverjum sportbar. Þar hefur verið mikil stemming fyrir keppninni, fullt hús og allir í stuði.