Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld hafa verið að vinna úr þeim fundi sem þau áttu með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar á almenna markaðnum. Hún hafi eftir það átt fund með forystufólki félaga á opinbera markaðnum.
„Að sjálfsögðu hafa þau auðvitað sínar hugmyndir um aðkomu ríkisins. Þannig að við erum að vinna úr þessum tillögum öllum. Eigum von á því að funda á vettvangi ráðherra á komandi dögum,“ segir forsætisráðherra. Eftir það verði síðan fundað á ný með aðilum vinnumarkaðarins.

Á almenna markaðnum hefur verið stefnt að því að ljúka kjarasamningum áður en janúar er liðinn og samningstími gildandi skammtímasamninga rennur út. Katrín segir góðan tón hafa verið í þeim sem sitji við samningaborðið hingað til.
„Og það var mjög góður fundurinn sem við áttum með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar. Eins voru þetta góðir fundir sem við áttum með aðilum á opinbera markaðnum. Þannig að ég hef verið bjartsýn hingað til og vona svo sannarlega að þetta geti gengið vel,“ segir Katrín.
Heldur þú að hægt sé að sameina væntingar hins opinbera markaðar og almenna markaðarins?
„Það er ákveðið úrlausnarefni bæði hvað varðar aðkomu stjórnvalda, að leggja fram aðgerðir sem þjóna öllum, á opinberum og almennum markaði, en síðan er auðvitað ljóst að við samningaborðið hafa væntingar verið ólíkar. Það hafa átt sér stað samtöl um þau málefni líka,“ segir Katrín Jakobsdóttir.