Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að 177 manns hafi verið um borð í vélinni sem er í eigu Alaska Airlines. Engan sakaði. Um var að ræða farþegaflugvél af gerðinni Boeing 737 Max 9.
Haft er eftir bandarískum flugmálayfirvöldum að þrýstingur hafi fallið í farþegarýminu þegar atvikið átti sér stað, með þeim afleiðingum að farþegum var veitt súrefni í gegnum öndunargrímur vélarinnar.
Vélin var í sextán þúsund feta hæð og sat enginn farþegi næst þeim hluta vélarinnar sem datt af. Um er að ræða hluta vélarinnar sem er fyrir aftan hreyfla hennar og vængi.
Henni var snúið aftur við til Portland í kjölfarið og var lent þar rúmum hálftíma síðar. Í myndböndum sem farþegar tóku úr vélinni má sjá að vel sést í næturhimininn frá vélinni þó gustað hafi vel um farþega.
Samkvæmt umfjöllun BBC hyggjast flugmálayfirvöld og framleiðandinn Boeing rannsaka atvikið í þaula. Þess er getið að Max vélar framleiðandans séu undir mesta eftirliti sem um getur í heiminum, eftir að vélar af þeirri gerð voru kyrrsettar í eitt og hálft ár í mars 2019 eftir tvö mannskæð flugslys.
NEW IMAGE from on board Alaska Airlines 1282 after ***part of the fuselage*** blew out mid-flight. Successful emergency return to Portland after 20 minutes in the air. 10-week-old (!) Boeing 737 Max 9. NTSB investigating. pic.twitter.com/qjX8fQ1br1
— Pete Muntean (@petemuntean) January 6, 2024