Veðurstofan sendi um hálf sex frá sér uppfært hættumatskort vegna jarðhræringa við Grindavík. Fréttastofa ræddi við Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðing sem vann við uppfærslu hættumatskortins.
„Við gerðum ekki stórar breytingar en breytingarnar sem við gerðum urðu til þess að Svartsengi fór á milli flokka, fór úr því að vera appelsínugult yfir í að vera gult. Það voru nú einu markverðu breytingarnar,“ sagði Benedikt um uppfærsluna.

Hvað þýðir það?
„Í raun endurspegla vöktunargögnin og sömuleiðis skoðanir flestra að það sé langlíkegast að það verði eldgos á Sundhnjúkagígaröðinni. Það endurspeglast í lægri líkum á eldgosi annars staðar á svæðinu,“ sagði hann.
„Öll gögn benda á Sundhnjúkagígaröðina þarna milli Hagafells og Stóra-Skógafells sem langlanglíklegasta upptakasvæðið fyrir eldgos. Endurspeglar fyrst og fremst það frekar en að það séu einhverjar stórar breytingar á Svartsengissvæðinu sjálfu,“ sagði Benedikt.
„Sömuleiðis voru þarna inni sprunguhreyfingar. Það eru sprunguhreyfingar en engar stórar sem valda hættu sem menn hafa séð á svæðinu síðustu viku. Þannig við lækkuðum það aðeins,“ segir hann.

Hægt og rólega að hægjast á landrisi
Svæði 1 og 2 á kortinu, sem ná yfir Sundhnjúkagígaröð, eru nú rauðmerkt sem þýðir að það sé mikil hætta á eldgosi. Efst á hættukvarðanum er fjólublár flokkur sem táknar mjög mikla hættu á eldgosi.
Aðspurður hvað þurfi til að svæði sé sett í efsta flokk og merkt fjólublátt segir Benedikt að þá þurfi „eiginlega eldgos eða algjörlega yfirvofandi eldgos.“ Rauður sé því eiginlega hæsti flokkurinn þegar gos er ekki hafið.
Sjáið þið einhvern tímaramma á þessu?
„Það er ekki nokkur leið að segja til um tímaramma í þessu. Við höfum verið að horfa á að það er hægt og rólega að hægja á aflöguninni, landrisinu.,“ segir Benedikt.
„Það eru alltaf þessar tvær túlkanir á því. Það getur verið að styttast í að eitthvað gerist en það getur líka þýtt að það sé að minnka umflæði. Það er nú kannski ekkert eins og er sem bendir til að flæðið sé að minnka. Það er frekar að það benda til að styttist í eitthvað. Allavega eins og er. En tíminn verður bara að leiða það ljós,“ sagði Benedikt að lokum.