Erlent

Á fjórða hundrað gripa orðið fyrir vatnstjóni á Louvre

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
90 milljóna evra virði af skartgripum var rænt af safninu fyrr í vetur.
90 milljóna evra virði af skartgripum var rænt af safninu fyrr í vetur. AP

Vatnstjón er sagt hafa orðið á mörghundruð gripum í egypskri álmu Louvre-safnsins í París eftir bilun í loftræstikerfinu, aðeins fáeinum vikum eftir stórtækt skartgriparán. Lekinn er sagður hafa orðið í lok nóvember.

Stjórnandi á safninu sem Guardian ræddi við segir á bilinu 300 til 400 gripi hafa orðið fyrir skemmdum af völdum lekans. Lán í óláni hafi verið að vatnið hafi hvergi komist nærri forngripum heldur lekið í gegnum loftið og inn í rými þar sem skrif Egyptalandsfræðinga og skjöl frá síðustu og þarsíðustu öld eru geymd.

Gripirnir sem urðu fyrir tjóni segir Francis Steinbock hafa mikið notagildi en að þeir séu til í afritum.

„Engir forngripir hafa orðið fyrir tjóni. Á þessum tímapunkti hefur enginn óafturkræfur skaði orðið á safneigninni,“ er haft eftir Francis.

Louvre-safnið segist munu hrinda af stað innanhúsrannsókn á lekanum, sem kom til vegna bilunar í loftræstikerfi safnsins. Loki opnaðist fyrir slysni og vatn streymdi inn í gegnum loft Mollien-álmunnar þar sem skjölin voru geymd.

Steinbock segir að skjölin sem urðu fyrir tjóni verði þerruð og þeim komið í hendur bókbindara til viðgerða. Síðan verði þeim komið fyrir í hillum Mollien-álmunnar á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×