Innlent

Söluminnsta fasteignaár í tæpan ára­tug

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Páll Pálsson rýnir í stöðuna á fasteignamarkaðinum.
Páll Pálsson rýnir í stöðuna á fasteignamarkaðinum. Vísir/Samsett

Árið í ár var það söluminnsta á fasteignamarkaðinum frá árinu 2014. Þetta segir Páll Pálsson fasteignasali í viðtali í Reykjavík síðdegis í dag.

Hann segir að desembertölurnar séu að vísu ekki komnar í hús en að desembersölur fylgi yfirleitt ákveðnum takti og lítið tilbreyting sé ára á milli. Lækkun í sölu nemur fimmtán prósentum miðað við í fyrra.

Páll vakti athygli fyrr í mánuðinum þar sem hann viðraði hugmyndir sínar um mögulegt forsetaframboð árið 2028 ákveði Guðni að bjóða sig fram aftur á næsta ári.

Páll segir að á landinu öllu hafi 880 til 890 samningar að meðaltali verið gerðir yfir árið en að í fyrra hafi verið um 1040 til 1050 samningar á mánuði. Hækkun fasteignaverðs á árinu nam 4,5 prósentum.

„Það má alveg færa rök fyrir því að markaðurinn sé í hinu fullkomna jafnvægi. Oft er talað um að það sé annað hvort kaupendamarkaður eða seljendamarkaður en nú virðist það vera þannig að allir geti keypt og allir geti selt. Það er leiðinlegt að það hafi þurft vaxtahækkun til þess að búa til þetta jafnvægi,“ segir Páll.

Það vakti athygli Páls að meðalaldur fyrstu kaupenda á árinu hafi verið 29,3 ár. Hann segir daga þess að fyrstu kaupendur séu á bilinu tuttugu til tuttugu og fimm ára liðna og að algengara sé að fólk sé að kaupa sína fyrstu íbúð um þrítugt.

Páll fer yfir frekari tölfræði á húsnæðismarkaðinum í viðtalinu sem hlusta má á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×