Í sjónvarpsfréttum okkar í gær var rætt við björgunarsveitarmann á Flateyri sem kippti sér lítið upp við að halda jólin innilokaður á Flateyri. Veðrinu slotaði síðdegis í gær.
„Hér var bara allt með ró og spekt. Það var komið blíðuveður um fjögurleytið í gær. Bara blankalogn og snjókoma,“ segir Ívar Kristjánsson, varaformaður Sæbjargar á Flateyri.
Ákveðið var í morgun að viðhalda óvissustigi vegna snjóflóða á Vestfjörðum í morgun vegna óvissu í veðurkortunum, en óvissustig var afnumið á Norðurlandi. Síðdegis í dag var ákveðið að gera slíkt hið sama á Vestfjörðum, þegar veðurspár tóku á sig skýrari mynd.
„Ég ákvað bara að vakna í morgun og sjá hvernig veðrið væri og það var bara blíða. Nú er bara verið að gera skautasvellið klárt, þannig að fólk komist á skauta.“
Snjóþyngslin í gær öftruðu ekki jólahaldinu hjá Ívari, frekar en öðrum í bænum.
„Fólkið hér á Flateyri hafði ekki áhyggjur held ég, allavega ekki neinn sem ég hef frétt af. Það var bara voða rólegt og ánægt að halda jólin,“ segir Ívar.
Flestir vegir á Vestfjörðum voru lokaðir eða ófærir í gær. Talsvert greiðfærara er orðið um svæðið en þó eru einhverjir vegir enn ófærir. Á þeim vegum sem nú eru opnir er víða talsverð hálka. Hér má nálgast upplýsingar um færð á vegum á landinu öllu.