Heilbrigðisráðuneytið á Gasa sagði í gærkvöldi að tvö hundruð hefðu fallið í árásum Ísraelsmanna síðasta sólarhringinn. Bandaríkjaforseti ræddi við forsætisráðherra Ísraels í gær. Forsetinn vildi ekkert gefa upp um efni samtalsins þegar hann var spurður fyrir utan Hvíta húsið, og sagði það hafa verið einkasamtal. Inntur eftir því hvort hann hefði farið fram á vopnahlé sagðist Biden ekki hafa gert það.
Benjamín Netanyahu segir stríðið á Gaza hafi kostað Ísraelsmenn mikið undanfarið. 153 hermenn hafa þegar fallið en gærdagurinn var einn sá blóðugasti, en Netanyahu segir Ísrael ekki hafa „neinn annan kost“ en að halda áfram að berjast.
Alls hafa fleiri en 20 þúsund manns látist frá upphafi stríðs - að stórum hluta konur og börn og um 54 þúsund hafa slasast í árásum á Gasa-ströndinni.
„Höfum það á hreinu, þetta verður langt stríð,“ er haft eftir Netanyahu í frétt BBC.
Það var annar blær yfir jólahátíðarhöldum í Betlehem, fæðingarstað Jesú Krists, á Vesturbakkanum vegna stríðsins. Betlehem hefur lengi verið áfangastaður þúsunda ferðamanna sem heimsækja bæinn í aðdraganda jólanna ár hvert.