Körfubolti

Embi­id nálgast magnað met Abdul-Jabbar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Joel Embiid hefur verið að spila frábærlega undanfarið.
Joel Embiid hefur verið að spila frábærlega undanfarið. Vísir/Getty

Nóg var um að vera í NBA-deildinni í nótt. Leikmenn Philadelphia 76´ers settu met í sigri liðsins á Toronto Raptors. Þá virðist Golden State Warriors vera komið á flug.

Philadelphia 76´ers vann 121-111 sigur á Toronto Raptors í nótt og er nú í þriðja sæti Austurdeildarinnar. Tyrese Maxey, Tobias Harris og Joel Embiid skoruðu allir yfir þrjátíu stig í leiknum en þetta er í fyrsta sinn síðan 1961 sem þrír leikmenn 76´ers gera það í sama leiknum.

Embiid skoraði 31 stig og tók 10 fráköst en hann hefur nú skorað meira en þrjátíu stig og tekið fleiri en tíu fráköst í þrettán leikjum í röð. Kareem Abdul-Jabbar á metið yfir flesta 30-10 leiki í röð en hann náði sextán slíkum tímabilið 1971-72.

Jordan Poole sneri aftur á sinn gamla heimavöll í nótt þegar Washington Wizards voru í heimsókn hjá Golden State Warriors. Steph Curry sá hins vegar til þess að endurkoma Poole var misheppnuð. Curry setti niður átta þriggja stiga skot í leiknum sem lið Warriors vann 129-118.

Poole fékk að öðru leyti góðar móttökurá sínum gamla heimavelli því fyrir leik var sýnt myndband frá tíma hans hjá liði Warriors og áhorfendur í Chase Center hylltu hann fyrir leik.

„Þetta var frábært. Myndbandið og móttökurnar sem Jordan fékk var hápunktur leiksins fyrir mér. Þetta var mjög svo verðskuldað vegna alls þess sem hann gerði fyrir félagið okkar, stuðningsmennina, leikmenn og þjálfara. Hann var lykilmaður í liði sem vann meistaratitil og átti þetta skilið. Það var dásamlegt að sjá þetta,“ sagði Steve Kerr þjálfari Golden State Warriors eftir leik.

Úrslit næturinnar í NBA:

Brooklyn Nets - Denver Nuggets 117-122

Houston Rockets - Dallas Mavericks 122-96

Miami Heat - Atlanta Hawks 122-113

Philadelphia 76´ers - Toronto Raptors 121-111

Golden State Warriors - Washington Wizards 129-118

Sacramento Kings - Phoenix Suns 120-105

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×