Ástarsamband Gritsch og landsliðsþjálfarans Florian Stengg hefur miklar afleiðingar fyrir þau bæði því Stengg þurfti líka að taka pokann sinn.
Skirennfahrerin Franziska Gritsch und der ÖSV gehen erstmal getrennte Wege. Grund ist die Beziehung zu einem ihrer Trainer. https://t.co/ihcovK0um8 #Wintersport #SkiAlpin
— Sportschau (@sportschau) December 21, 2023
Hin 26 ára gamla Gritsch hefur verið í landsliðinu undanfarin fimm ár. Hún hefur þrisvar komist á verðlaunapall á heimsbikarnum og vann silfur í liðakeppni á HM.
Stengg er átta árum eldri en hún. Þau urðu ástfangin og hófu ástarsamband í leyfi. Slíkt samband er stranglega bannað hjá skíðasambandi Austurríki. Parið vill ekki hætta saman og ætlar að taka afleiðingunum.
„Ef þú eltir hjartað þitt þá getur þú endað á nýjum slóðum. Þú verður að vera hugrakkur og treysta tilfinningum þínum. Ég og Florian höfum hugsað vel og lengi um þetta og þótt að þetta kalli á nýjar áskoranir þá finnst okkur þetta vera rétta ákvörðunin,“ skrifaði Franziska Gritsch í færslu á Instagram.
Austurríska sambandið er mun harðorðara gagnvart þjálfaranum en henni.
„Það er óásættanlegt hjá þjálfara að hefja samband með virkum landsliðsmanni og við getum ekki treyst honum lengur,“ sagði Herbert Mandl, liðstjóri landsliðsins við sport.sk.