Körfubolti

Tryggði liðinu sigur með flautukörfu í fyrsta leiknum eftir langt bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Memphis Grizzlies fagna sigurkörfu Ja Morant í nótt.
Leikmenn Memphis Grizzlies fagna sigurkörfu Ja Morant í nótt. Getty/Chris Graythen

Ja Morant snéri aftur til baka í NBA-deildina í nótt eftir 25 leikja bann og var ekki lengi að ráða úrslitum fyrir sitt lið.

Morant skoraði þá sigurkörfu Memphis Grizzlies á lokasekúndunum þegar liðið vann 115-113 sigur á New Orleans Pelicans.

Morant gerði gott betur en það því hann endaði leikinn með 34 stig og 8 stoðsendingar. Þetta er það mesta sem leikmaður hefur skorað í fyrsta leik eftir svo langt leikbann.

„Ég er búinn að leggja mikið á mig. Ég hafði ekki spilað í átta mánuði og fékk góðan tíma til að læra betur inn á sjálfan mig. Það voru fullt af erfiðum dögunum en körfuboltinn er mitt líf og ég er svo spenntur að vera kominn til baka,“ sagði Ja Morant.

Morant var dæmdur í leikbann fyrir að veifa byssu á almannafæri en myndbönd með honum birtust á samfélagsmiðlum. Þegar hann lét ekki segjast og sást aftur með byssu á lofti þá tók NBA deildin mjög hart á honum og dæmdi hann í þetta langa bann.

Memphis Grizzlies saknaði auðvitað síns besta manns mjög mikið en liðið vann aðeins 6 af 25 leikjum án hans. Liðið hafði tapað fimm leikjum í röð fyrir leikinn í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×