Í tilkynningu Marel til Kauphallar í gær er vísað til fyrri tilkynningar til markaðar þann 24. nóvember síðastliðinn varðandi fyrri óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT. Þá var fyrirhugað verð á hlut í yfirlýsingunni 3,15 evrur eða 482 krónur. Miðað við það væri Marel metið á 363 milljarða króna.
Í nýrri yfirlýsingu kemur skýrt fram að ekki sé um að ræða lagalega bindandi skuldbindingu og að verði valkvætt yfirtökutilboð lagt fram á síðari stigum, yrði slíkt tilboð háð margvíslegum skilyrðum.
Feðgarnir selja ekki öðrum en JBT
Í uppfærðu viljayfirlýsingunni er vísað til óafturkallanlegrar yfirlýsingar Eyris Invest hf., eiganda 24,7 prósent hlutafjár í Marel, um stuðning Eyris Invest hf. við fyrri viljayfirlýsingu sem og betra tilboð frá JBT ef svo bæri undir. Jafnframt er í viljayfirlýsingunni vísað til samkomulags Eyris Invest hf. og JBT um að Eyrir gangi ekki til viðræðna við aðra en JBT um sölu hlutafjár Eyris í Marel.
Eyrir Invest er í tæplega þriðjungseigu feðganna Þórðar Magnússonar og Árna Odds Þórðarsonar, sem lengi vel fóru með tögl og hagldir í Marel. Töluvert hefur dregið úr áhrifum þeirra innan félagsins eftir að Þórður lét af störfum sem stjórnarformaður Eyris og Árni Oddur lét af störfum sem forstjóri Marel.
Bjóða átta prósent meira og sveigjanleika í samsetningu endurgjalds
Í nýrri óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT er fyrirhugað verð 3,40 evrur á hlut, 511 krónur á hlut miðað við skiptigengi 150,3, fyrir allt útistandandi hlutafé í Marel. Þá er tillaga JBT að verðmati byggð á þeirri forsendu að útistandandi hlutir í Marel séu 754 milljónir og staða áhvílandi lána nemi 827 milljónum evra.
Það gerir um 385,3 milljarða króna, ríflega 22 milljörðum meira en í upphaflegri yfirlýsingu.
Þá segir að í viljayfirlýsingunni sé gert ráð fyrir sveigjanleika í samsetningu endurgjalds eða að allt að 50 prósent af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og allt að 100 prósent verði í formi hlutabréfa í sameinuðu félagi JBT og Marel.
Í fyrri yfirlýsingu var gert ráð fyrir að 25 prósent yrði greitt í reiðufé og rest í hlutabréfum í sameinuðu félagi.
Það kemur jafnframt fram að hluthafar Marel muni eiga um það bil 38 prósent af hlutum í sameinuðu félagi eftir möguleg viðskipti ef byggt er á 25 prósent hlutfalli reiðufjár og 75 prósent í hlutabréfum. Ef byggt er á 100 prósent greiðslu í hlutabréfum myndu hluthafar Marel eiga um 45 prósent hlutafjár í sameinuðu félagi.
Engar frekari upplýsingar koma fram eða liggja fyrir um gengi hluta í JBT eða hugsanlegt skiptigengi.