Fyrir leikinn í kvöld voru liðin efst og jöfn í riðlinum en bæði höfðu þau unnið þrjá sigra í fjórum fyrstu leikjunum. Í kvöld var því barist um toppsæti riðilsins.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og að honum loknum leiddi ísraelska liðið með þremur stigum. Staðan þá 33-30 og sóknirnar augljóslega ekki í aðalhlutverki í Belgrad.
Í þriðja leikhluta náðu leikmenn Hapoel hins vegar yfirhöndinni í leiknum. Þeir lokuðu á sóknarleik PAOK og unnu leikhlutan 21-10. Staðan 54-40 fyrir lokafjórðunginn.
Þar bitu gestirnir frá sér undir lokin. Þeim tókst jafnt og þétt að minnka muninn og minnkaði Elvar hann í fimm stig í stöðunni 61-56 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. PAOK fékk tækifæri til að minnka muninn enn frekar en töpuðu boltanum og fengu þriggja stiga körfu í bakið.
Sá átta stiga munur var of stór fyrir PAOK að vinna upp og lið Hapoel sigldi sigrinum í höfn. Lokatölur 71-61 og ísraelska liðið því efst í riðlinum þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.
Elvar stýrði leik PAOK í kvöld. Hann skoraði sjö stig, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar.