Chelsea situr í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa aðeins unnið fimm af 16 leikjum sínum til þessa. Pochettino er fjórði þjálfari liðsins á stuttum tíma en frá byrjun síðasta tímabils hafa Thomas Tuchel, Graham Potter og Frank Lampard tímabundið allir stýrt liðinu.
Síðan þá hefur leikmannahópur félagsins tekið gríðarlegum breytingum og þær munu halda áfram ef Pochettino fær einhverju ráðið. Samkvæmt The Guardian vill hann styrkja hópinn, þá helst framarlega á vellinum.
Nicolas Jackson var keyptur frá Villareal síðasta sumar en hefur ekki enn fundið taktinn á Englandi. Þá er Romelu Lukaku í eigu Chelsea en á láni hjá Roma út leiktíðina. Guardian telur að Victor Osimhen hjá Napoli og Ivan Toney hjá Brentford séu efstir á óskalistanum.
Sá síðarnefndi hefur ekki enn spilað á leiktíðinni eftir að enska knattspyrnusambandið dæmdi hann í leikbann fyrir að veðja á leiki. Hann má hefja leik að nýju í janúar. Þá er Viktor Gyökeres, framherji Sporting í Portúgal, einnig á óskalistanum. Sá spilaði með Coventry City frá 2021 til síðasta sumars.
Chelsea hefur eytt gríðarlegum upphæðum undanfarið og þarf líklegast að selja leikmenn í janúar ætli félagið sér að versla leikmenn. Talið er að Armando Broja, Ian Matsen og Trevoh Chalobah geti allir verið á útleið.