Ísland vann öflugan sigur í Viborg sem gerði það að verkum að Danmörk tókst ekki að vinna riðilinn en fyrir var ljóst að Ísland myndi enda í 3. sæti og væri á leið í umspil um að halda sæti sínu í A-deild. Það er mikilvægt fyrir undankeppni næsta Evrópumóts. Dregið verður á mánudag en Ísland getur mætt Ungverjalandi, Króatíu, Serbíu eða Bosníu.
Fanney Inga var hreint út sagt frábær í kvöld og sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, að þrátt fyrir að það stæði 18 ára í vegabréfinu þá væri hún um það bil þrítug í anda.
„Ég hef heyrt það nokkuð oft sem er smá fyndið því foreldrar mínir eru nýorðin þrítug, eða svona, þau eru 37 ára,“ sagði Fanney Inga og hló.
Fanney Inga lét alkulið í Viborg ekki fá á sig og var mjög yfirveguð í öllum sínum aðgerðum. Að öðrum ólöstuðum var hún besti leikmaður Íslands og vallarins í kvöld.
„Mér leið mjög vel. Er með frábæra leikmenn fyrir framan mig, þegar maður er með svona góða leikmenn með sér í liði þarf maður ekkert að vera stressaður.“
„Ég held þetta setjist ekkert inn fyrr en ég kem heim til Íslands. Ég er enn að jafna mig eftir þjóðsönginn, það var geggjuð stund og frábært að spila þennan leik,“ sagði Fanney Inga að endingu.