Í fréttatilkynningu segir að Norvik, sem á meðal annars Byko, hafi sent tilkynningu til sænsku kauphallarinnar um niðurstöðu á valfrjálsu yfirtökutilboði í allt hlutafé Bergs. Tilboðið hafi hljóðað upp á gengið 44,50 sænskar krónur fyrir hvern hlut í Bergs í reiðufé. Fyrir tilboðið hafi Norvik átt 58,7 prósent hlutafjár í Bergs og tilboðið því beinst að 41,3 prósent hlut í félaginu í eigu ríflega 12.000 hluthafa.
Miðað við gengi upp á 44,5 sænskar krónur er vermæti Bergs 19,3 milljarðar íslenskra króna.
Tilboðsfresturinn hafi runni út í dag og eigendur að 36,7 prósent hlut í Bergs hafi samþykkt tilboðið, sem feli í sér að samtals eignarhlutur Norvik í félaginu mun nema 95,4 prósent.
Allir fyrirvarar tilboðsins, meðal annars samþykki samkeppnisyfirvalda á Íslandi og í Lettlandi, hafi verið uppfylltir og viðskiptin muni því ganga í gegn með uppgjöri þann 30. nóvember.
Norvik hafi veitt þeim hluthöfum sem ekki hafa þegar gengið að tilboðinu viðbótarfrest til 12. desember til að samþykkja tilboðið. Norvik muni óska eftir afskráningu Bergs úr kauphöllinni Nasdaq Stockholm og innlausn útistandandi hluta í Bergs.