Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KR en Ole Martin kom til KR í upphafi árs 2023 og samdi til loka árs 2025. Fyrr í dag fóru háværar sögusagnir á kreik þess efnis að Ole Martin væri á förum frá KR.
„Þegar tækifæri bjóðast þá er það stefna KR að ekki standa í vegi fyrir því að þjálfarar eða leikmenn fái tækifæri að taka skref fram á við í sinni þróun. KR þakkar Ole Martin fyrir frábært starf í þágu félagsins og óskar honum um leið velfarnaðar í nýju starfi.“
Ole Martin skilar einnig kveðju til KR-inga í yfirlýsingunni:
„Mig langar að þakka öllum KR-ingum fyrir skemmtilegt og spennandi ár sem senn er að líða. Ég naut hverrar stundar að vera hluti af KR-fjölskyldunni og að búa í Vesturbænum. Nú er tíminn réttur fyrir mig að taka næsta skref á ferlinum, en ég mun alltaf hugsa til baka til míns tíma hjá KR með hlýhug.
Þá langar mig að þakka fyrir tækifærið sem ég fékk hjá KR og þakka öllum leikmönnum og starfsfólki KR fyrir að gera árið ógleymanlegt. Að lokum vil ég óska Gegg, öðrum þjálfurum og leikmönnum alls hins besta á nýju ári og er viss um að það séu bjartir tímar framundan hjá KR.“ segir Ole Martin