„Þegar þetta er svona órafmagnað eins og það er kallað er oftast notast við fá element og stundum þarf maður að sleppa mikilvægum hlekkjum í tónlistinni, hún verður því naktari fyrir vikið. Við komum til með að leika lög sem ég hef ekki verið að flytja mikið hér á landi. Þetta eru flest lög sem ég samdi með breskum gaur sem kallar sig The Pylon King. Lögin eru á Spotify á plötunni Ragga and The Jack Magic Orchestra. Það er gaman að spila þau," segir Ragga.
Milli laga tyllir hún sér í sófann hjá Völu Eiríks og segir frá lögunum.
„Ég valdi hluta af lögum sem hafa texta sem mér finnst gaman að ræða og eru nett pólitísk eða falla inn í hluta af því sem ég er að pæla svona í lífinu. Hlustendur eiga von á að heyra frábæran tónlistarflutning þeirra Tómasar Jónssonar, Guðna Finnssonar og Magnúsar Magnússonar sem eru með mér í hljómsveitinni Besta band,“ segir Ragga.

Bylgjan órafmögnuð hófst á Bylgjunni, Vísi og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi í upphafi nóvember en þetta er þriðja árið í röð sem tónleikaröðin er haldin.
Næstu tónleikar í Bylgjan órafmögnuð:
- 7. desember – Jónas Sig
- 16. desember – Jólaþáttur með öllum tónlistarmönnunum sem komið hafa fram, þau Jóhanna Guðrún, Klara Elías, Friðrik Dór, Ragga Gísla og Jónas Sig.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20 á Bylgjunni, Vísi og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.
Framundan hjá Röggu er annasöm aðventa og meira tónleikahald. „Í desember tek ég þátt í mismunandi jólatónleikum eins og Jólagestum, Jól og Næs, Jól í Höllinni í Eyjum og Bríet í Hörpu. Stóru fréttirnar eru þær að ég og Besta band verðum með tónleika í Gamla bíói 20. janúar og það verður mikið mikið gaman, þetta er tjúllað flottur hópur. Ég hlakka til að sjá ykkur þar.“