Gunnar Marel Eggertsson skipstjóri og skipasmiður er enginn nýgræðingur íbyggingu víkingaskipa. Hann smíðaði skipið Íslending skömmu fyrir síðustu aldamót og sigldi því ásamt áhöfn frá Íslandi til Grænlands, Nýfundnalands, meginlands Kanada og Bandaríkjanna árið 2000 til að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar í Ameríku þúsund árum áður.
Hann hefur nú ásamt Ragnari Thorseth, norskum félaga sínum, hafið undirbúning að smíði á Knörr, sem hann segir allt annars konar skip. Knörrinn væri flutningaskip víkinganna og grundvöllurinn að byggð á Íslandi.
„þetta er skip sem mest var notað til Íslands og Grænlands. Sem Bjarni Herjólfsson notaði og síðar Leifur Eiríksson til að fara til Ameríku á því. Þetta er nákvæmlega það skip. Þetta er skipið sem útbreiddi kristna trú um norður Atlantshaf og þetta er skipið sem bar fyrstu kirkjuna til Íslands frá Noregi,“ segir Gunnar Marel.

Knörrinn hafi því lagt grundvöll að byggð og menningu á Íslandi og víðar. Skipið sem fannst í Hedyby íSchleswig-Holstein árið 1980 hafi verið byggt á bilinu 1006 til 1026. Það hafi nú þegar verið mælt upp og mikilvægt að smíða eftirlíkingu af því fyrir sögu Íslendinga og Norðmanna.
„Jómfrúarferðin verður hingað til Íslands og til Grænlands og fljótlega til baka aftur. Síðan vítt og breitt um þetta svæði sem þeir voru mest á og kynna söguna,“ segir skipasmiðurinn og skipstjórinn.

Byrjað væri að safna efni í skipið en sjálf smíðin hæfist ekki fyrr en seinnipart næsta sumars. Áætlaður kostnaður viðbyggingu skipsins með öllum nútíma öryggisbúnaði væri um 20 milljónir norskra króna, eða um 260 milljónir íslenskra króna.
„Þetta er stórmerkilegt fyrir ekki síst Íslendinga. Líka fyrir Grænland og norður Ameríku. Þetta er skipið sem var notað til að fara á til Ameríku í upphafi, til Vínlands, árið 1000,“ segir Gunnar Marel Eggertsson.