Þetta kemur fram í forsíðufrétt Heimildarinnar sem kemur út í dag. Þar segir að hundruð milljóna króna hagnaður hafi orðið til í þessum aflandsfélögum.
Konurnar eru Anna Lísa Sigurjónsdóttir, eiginkona Hreiðars Más Sigurðssonar fyrrverandi bankastjóra Kaupþings; Lovísa María Gunnarsdóttir, eiginkona Magnúsar Guðmundssonar sem var bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg; og Þórhildur Einarsdóttir, eiginkona Steingríms Páls Kárasonar, fyrrverandi forstöðumanns áhættustýringar Kaupþings.
Heiðar Már og Magnús fengu þunga fangelsisdóma í kjölfar hrunsins og Steingrímur Páll var dæmdur til að endurgreiða himinhá lán frá Kaupþingi á árunum fyrir hrun. Lán hans árið 2008 námu 2,3 milljörðum króna.
Heimildin vísar til gagna sem láku frá kýpverskri fyrirtækjaþjónustu sem sérhæfir sig í að fara með daglegan rekstur skúffufyrirtækja fyrir erlenda aðila. Gögnunum var lekið til alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna.
Í frétt Heimildarinnar sýna gögnin hvernig hópur fólks, sem tengist í gegnum hinn fallna banka Kaupþing, hefur getað fjárfest fyrir háar upphæðir víða um heim með því að geyma auð sinn á erlendum reikningum á eyjum á borð við Tortóla og Kýpur. Um félögin hafi streymt hundruð milljóna króna sem hagnaður eða lán.
Hreiðar Már hefur eftir hrun og fangelsisvist haslað sér völl í ferðamannabransanum á Íslandi. Þar er hann orðinn umsvifamikill í hótelrekstri á Snæfellsnesi.
Nánar má lesa um fjárfestingaklúbb Kaupþingskvenna í Heimildinni.