Körfubolti

LeBron fyrstur til að skora 39 þúsund stig í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fagnar hér einni af körfum sínum í leiknum í nótt.
LeBron James fagnar hér einni af körfum sínum í leiknum í nótt. AP/Ryan Sun

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers komust í nótt í átta liða úrslit nýja deildarbikars NBA deildarinnar ásamt liði Indiana Pacers.

Lakers vann öruggan 131-99 sigur á Utah Jazz og vann þar með alla fjóra leiki sína í riðli sínum. 

Sigurvegarinn fer í átta liða úrslit keppninnar en þangað komst Indiana Pacers einnig í nótt eftir 122-119 sigur í framlengingu á Philadelphia 76ers. Indiana er bara búið að vinna þrjá leiki en eru með betri innbyrðis stöðu á liðin sem geta náð þeim.

Þetta eru tvö fyrstu liðin til að komast áfram en riðlarnir eru komnir mismunandi langt. Sex riðlar skila sex sigurvegurum áfram sem og tveimur liðum með bestan árangur í öðru sæti. Í átta liða úrslitum er siðan barist um sæti í lokaúrslitunum í Las Vegas.

LeBron James sjálfur hélt áfram að bæta stigametið sitt og í þessum leik varð hann sá fyrsti til að skora 39 þúsund stig í NBA. James þurfti fimm stig en skoraði sautján stig í leiknum auk þess að gefa níu stoðsendingar og taka sjö fráköst.

James bætti stigamet Kareem Abdul-Jabbar í febrúar sem voru 38.387 stig og stóð í 38 ár.

Tyrese Haliburton er að spila frábærlega með Indiana liðinu og hann var með 37 stig og 16 stoðsendingar þegar Pacers liðið vann upp tuttugu stiga forskot Philadelphia 76ers liðsins.

Átta liða úrslitin fara fram 4. og 5. desember en úrslitahelgin er síðan 7. til 9. desember í Las Vegas.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×