Nýr samningur Emils er út 2026 tímabilið en hann verður þá orðinn 33 ára gamall.
Emil varð orðaður við önnur félög eftir tímabilið en skiljanlega pössuðu Garðbæingar upp á það að missa ekki þennan frábæra leikmann frá sér.
Emil skoraði sautján mörk í 21 leik í Bestu deildinni síðasta sumar og varð markakóngur deildarinnar.
Emil gerði sig um tíma líklegan til að jafna eða bæta markametið en náði ekki að skora í tveimur síðustu leikjum liðsins eftir að hafa skorað tíu mörk í sjö leikjum þar á undan.
Emil hefur nú skorað 33 mörk fyrir Stjörnuna í efstu deild og er aðeins einu marki frá því að komast i þriðja sætið yfir markahæstu leikmenn félagsins.
„Ég vil byrja á því að henda í risastórt shoutout á Silfurskeiðina og áhorfendur sem sýndu okkur mikilvægan stuðning þetta árið. Þið eruð ótrúleg! Sjálfur hef ég ekki upplifað jafn þéttan hóp á mínum ferli,” segir Emil í frétt á miðlum Stjörnunnar.
„Liðið er á flottum stað og er ég mjög ánægður að geta verið hér áfram, því við erum bara rétt að byrja! Við sjáum vonandi stappfullan Samsungvöll á næsta tímabili því við ætlum okkur stóra hluti!,” segir Emil um framlenginguna á samningi sínum.