Körfubolti

Treystu ferlinu og sóttu sjöunda sigurinn í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Joel Embiid var verðmætasti leikmaðurinn í NBA-deildinni síðasta vetur og hefur nú unnið sjö sigra í röð með 76ers.
Joel Embiid var verðmætasti leikmaðurinn í NBA-deildinni síðasta vetur og hefur nú unnið sjö sigra í röð með 76ers. Getty/Mitchell Leff

Philadelphia 76ers héldu áfram sigurgöngu sinni og liðið hefur nú unnið sjö deildarleiki í röð eftir að tapa þeim fyrsta. Alls fóru níu leikir fram í nýju móti innan NBA í nótt. Öll lið hafa nú leikið einu sinni í riðlakeppni mótsins. 

Öll 30 liðin taka þátt í mótinu, þeim er skipt í sex riðla af handahófi og leika við hvort annað innbyrðis, leikirnir teljast allir með sem deildarleikir og hafa áhrif á niðurröðun liðanna, nema undanúrslita- og úrslitaleikurinn sem fer fram í byrjun desember í Las Vegas. Efsta lið hvers riðils, auk tveggja 'wildcard' liða fara áfram í 8-liða úrslit. 

Mikið púður hefur verið lagt í að gera mótið spennandi fyrir alla sem að því koma, leikmenn, þjálfara og aðdáendur. Allir leikmenn og þjálfarar sigurliðsins fá 500.000$ í verðlaunafé.

Phoenix frumsýndi nýjan fjólubláan völl sem verður eingöngu notaður í mótsleiki en sparaður í venjulegum deildarleikjum. Þeir töpuðu leik sínum gegn LA Lakers, 119-122.  

Philadelphia 76ers unnu sjöunda leik sinn í röð þegar liðið lagði Detroit Pistons að velli, 114-106. Joel Embiid og Tyrese Maxey, skærustu stjörnur liðsins eftir brotthvarf James Harden, áttu góðan leik. 

Giannis Antetokounmpo átti stórleik í 124-126 tapi Milwaukee Bucks gegn Indiana Pacers og skoraði 54 stig. Hann lét tapið ekkert á sig fá og grínaðist á samfélagsmiðlum eftir á. 

Golden State Warriors, með skvettubræðurna Steph Curry og Klay Thompson fremsta í flokki, fengu tvö tækifæri til að jafna leikinn á lokasekúndum gegn ríkjandi meisturum Denver Nuggets, en töpuðu að endingu 105-108. 

Öll úrslit næturinnar má finna hér og stöðuna í riðlakeppni mótsins má sjá hér.  

Hægt er að horfa á alla leiki deildarinnar með áskrift að NBA League Pass sem er á sérstökum vildarkjörum fyrir áskrifendur Stöð 2. Lögmál leiksins fjallar svo um deildina á Stöð 2 Sport. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×