Elvar Friðriksson skrifaði sig á sögubækurnar í fyrsta leik PAOK í keppninni þegar hann náði fyrstu þreföldu tvennu keppninnar í sex ár.
Þá vann PAOK 88-77 sigur á tyrkneska liðinu Galatasaray og var Elvar með 19 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar.
Í kvöld var lið PAOK mætt til Portúgal þar sem Benfica var andstæðingurinn en þetta var fyrsti leikur portúgalska liðsins í keppninni. Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleiknum og PAOK var einu stigi yfir að honum loknum 41-40.
Í þeim þriðja náðu heimamenn í Benfica áhlaupi. Þeir náðu mest ellefu stiga forskoti og leiddu 68-60 fyrir lokahluta leiksins. Þar héldu þeir forystunni, voru komnir sautján stigum yfir þegar um fjórar mínútur voru eftir og björninn þá unninn.
Lokatölur 94-72 og Benfica því komið á blað í keppninni. Elvar Friðriksson átti góðan leik fyrir PAOK í kvöld. Hann skoraði 16 stig, tók 4 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.