Samkvæmt Forbes eru auðæfi Magic metin á 1,2 milljarð Bandaríkjadala, hvorki meira né minna.
Í umfjöllun tímaritsins kemur fram að Magic hafi þénað fjörutíu milljónir dala á meðan á ferlinum stóð. Hann hafi svo auðgast gríðarlega í seinni tíð og grætt mest á hlut sínum í líftryggingafélagi.
Magic á hlut í þremur íþróttafélögum í Los Angeles og í fyrirtækjum á borð við Starbucks og Burger King.
Þrír aðrir íþróttamenn eru milljarðamæringar samkvæmt Forbes: körfuboltamennirnir Michael Jordan og LeBron James og kylfingurinn Tiger Woods.
Magic lék allan sinn feril í NBA-deildinni með Los Angeles Lakers og varð fimm sinnum meistari með liðinu. Hann þjálfaði það einnig til skamms tíma 1994. Þá varð Magic háskólameistari með Michigan State og Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu.