Innlent

Á­kærður fyrir að stinga mann tvisvar í brjóst­hol á bíla­stæði í Breið­holti

Jón Þór Stefánsson skrifar
Árásin átti sér stað í Breiðholti. Myndin er úr safni.
Árásin átti sér stað í Breiðholti. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að stinga annan mann tvisvar sinnum með hníf í brjóstholið og veitt honum slæma áverka fyrir vikið. Aðalmeðferð málsins fer fram í næstu viku.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað árið 2021. Í ákæru segir að það hafi gerst á bílastæði, en samkvæmt heimildum Vísis var það í Breiðholti í Reykjavík.

Annað stungusárið var fyrir framan brjóstkassa brotaþolans og var sex sentímetra langt og töluvert djúpt. Í ákæru segir að það hafi náð að fleiðru, eða brjósthimnu.

Hitt stungusárið var átta sentímetra langt og fyrir framan brjóstkassa. Þá segir að það hafi næstum því náð að fleiðru og hafi ollið afrifubroti frá herðablaði.

Það er héraðsaksóknari sem rekur málið í Héraðsdómi Reykjavíkur, en maðurinn er ákærður fyrir tilraun til manndráps og er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar og að hann greiði allan sakarkostnað.

Þá krefst brotaþoli málsins þriggja milljóna króna í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×