Emilía Ósk Steinarsdóttir fór á kostum í sigri FH á Fjölni í Kaplakrika og hélt heldur betur upp á það að hún fékk eftir allt saman að spila leikinn.
Emilía Ósk hafði nefnilega fengið rautt spjald í leik á móti Víkingi fyrr í mánuðinum og var dæmd í eins leiks bann í kjölfarið.
FH-ingar voru skiljanlega mjög ósáttir með þann dóm enda sýndu myndbönd að þetta var aldrei rautt spjald.
FH sendi inn greinargerð og með myndbandið af brotinu. Dómararnir sáu að sér og ákváðu að draga rauða spjaldið til baka og þar með var leikbann Emilíu úr sögunni.
Emilía Ósk mætti því í Fjölnisleikinn og ætlaði heldur betur að njóta þess að fá að spila leikinn sem hún átti ekki að fá að spila.
Emilía endaði með ellefu mörk í leiknum eða tveimur mörkum fleiri en allt Fjölnisliðið. Hún var líka langmarkahæst í FH-liðinu með átta mörkum meira en næsti liðsfélagi.
FH og Selfoss hafa bæði unnið fjóra af fjórum leikjum í deildinni og stefna upp í Olís deild kvenna að ári.