Umfjöllun: Ísland - Liechtenstein 4-0 | Gylfi er algjört met Sindri Sverrisson skrifar 16. október 2023 21:40 Hákon Arnar Haraldsson eltir Gylfa Þór Sigurðsson er þeir fagna marki en báðir voru þeir á skotskónum í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT Gylfi Þór Sigurðsson stal senunni þegar Ísland vann öruggan sigur á Liechtenstein á Laugardalsvelli í kvöld, 4-0, í undankeppni EM í fótbolta. Gylfi skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu og jafnaði þar með markamet landsliðsins, og hann bætti það svo í seinni hálfleik þegar hann kom Íslandi í 3-0. Gylfi hefur þar með skorað 27 mörk fyrir Ísland, einu fleira en þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson. Alfreð Finnnbogason kom Íslandi í 2-0 rétt fyrir hálfleik en Hákon Arnar Haraldsson skoraði fjórða markið á 63. mínútu. Íslenska liðið hafði algjöra yfirburði og hefðu mörkin hæglega getað orðið fleiri. Það voru liðin tæp þrjú ár frá því að Gylfi skoraði síðast fyrir íslenska landsliðið og einhvern veginn erfitt að vita við hverju ætti að búast af honum í þessum fyrstu landsleikjum eftir svo langt hlé. En frá fyrstu mínútu í kvöld var augljóst af öllu hans látbragði að hann væri svo sannarlega mættur aftur, tilbúinn að halda áfram að gleðja íslensk hjörtu með mörkum. Það er ekkert venjulegt afrek. Andstæðingarnir í kvöld voru vissulega máttlitlir, stigalausir og bara með það markmið að tapa ekki aftur 7-0 fyrir Íslandi. En Gylfi var ekki bara mikið betri en þeir heldur leiddi hann íslenska liðið áfram eins og hann hefur svo ótal oft gert, og það var bara tímaspursmál hvenær hann myndi skora. Þannig var Gylfi búinn að eiga glæsilegt skot í markvinkilinn og út áður en hann náði í vítaspyrnuna sem fyrra markið hans kom úr, eftir að hann sendi boltann í hönd varnarmanns. Vítaspyrnan hans var stórkostleg, í þverslá og inn, og áhorfendur fögnuðu vel og innilega með honum að hafa jafnað markametið. Gylfi Þór Sigurðsson jafnaði markametið úr þessari vítaspyrnu.VÍSIR/HULDA MARGRÉT En Gylfi hélt áfram að skapa færi og sló svo metið snemma í seinni hálfleik þegar hann var aleinn í teignum eftir sendingu Arnórs Ingva Traustasonar. Allir vissu að úr svona færi myndi Gylfi skora, og það er enn ein rósin í hnappagat hans sem fótboltamanns að geta snúið svona til baka eftir afar langa fjarveru frá öllum fótbolta. Annar meðlimur úr gamla bandinu, Alfreð Finnbogason, skoraði í millitíðinni annað mark Íslands rétt fyrir hálfleik og Elías Rafn Ólafsson kom svo í veg fyrir að Liechenstein næði að minnka muninn úr víti rétt fyrir hlé, í eina skiptið sem gestirnir sköpuðu raunverulega hættu í leiknum. Elías Rafn Ólafsson hélt marki Íslands hreinu í kvöld. Hann varði víti í lok fyrri hálfleiks, sem reyndar var svo endurtekið vegna þess að leikmenn hlupu inn í teiginn, en seinna vítið fór framhjá.VÍSIR/HULDA MARGRÉT Raunar virtust leikmenn Liechtenstein alls ekki með það í huga að ætla sér að ná í stig úr leiknum, og það var skammarlegt að fylgjast með þeim tefja sí og æ allan leikinn, sama þó að þeir væru sjálfir að tapa. Aðeins til að lágmarka skaðann. Er þá ekki skárra að tapa bara frekar 5-0? Hákon Arnar Haraldsson skoraði fjórða og síðasta mark Íslands með glæsilegri vippu þegar enn var hálftími til stefnu, skömmu eftir að Gylfa var skipt af velli. Nýja, markahæsta landsliðsmanninum var afar vel fagnað þegar hann gekk af velli. Íslenska liðið fékk nokkur stórgóð færi til að skora fleiri mörk á meðan að Elías Rafn átti náðugt kvöld í markinu. Guðlaugur Victor Pálsson og Sverrir Ingi Ingason héldu áfram sem miðverðir Íslands og sluppu við að fá á sig mark í kvöld enda andstæðingurinn slakur.VÍSIR/HULDA MARGRÉT Enn afar veik von en annars er það umspil Ísland er nú í 4. sæti síns riðils, sex stigum á eftir Slóvakíu sem er í 2. sæti, þegar tvær umferðir eru eftir. Það er því enn mögulegt, en mjög ólíklegt, að Ísland nái 2. sætinu og komist beint á EM. Til þess þarf liðið að vinna Slóvakíu og Portúgal á útivelli í næsta mánuði, og treysta jafnframt á hjálp frá Bosníu sem þarf að vinna Slóvakíu og ná að minnsta kosti jafntefli við Lúxemborg. Það ólíklegasta í þessu er líklega að Ísland fari til Lissabon og vinni portúgölsku stjörnurnar, og líklega er eðlilegra að horfa til umspilsins í mars sem afskaplega líklegt er að Ísland muni taka þátt í vegna árangurs liðsins í Þjóðadeildinni. Það eru fimm mánuðir í það umspil, og hver mánuður eykur vonandi líkurnar á því að Gylfi verði í mars orðinn fær um að skjóta Íslandi á stórmót á nýjan leik. Kvöldið í kvöld jók óneitanlega á alla bjartsýni varðandi það. Fótbolti Landslið karla í fótbolta EM 2024 í Þýskalandi
Gylfi Þór Sigurðsson stal senunni þegar Ísland vann öruggan sigur á Liechtenstein á Laugardalsvelli í kvöld, 4-0, í undankeppni EM í fótbolta. Gylfi skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu og jafnaði þar með markamet landsliðsins, og hann bætti það svo í seinni hálfleik þegar hann kom Íslandi í 3-0. Gylfi hefur þar með skorað 27 mörk fyrir Ísland, einu fleira en þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson. Alfreð Finnnbogason kom Íslandi í 2-0 rétt fyrir hálfleik en Hákon Arnar Haraldsson skoraði fjórða markið á 63. mínútu. Íslenska liðið hafði algjöra yfirburði og hefðu mörkin hæglega getað orðið fleiri. Það voru liðin tæp þrjú ár frá því að Gylfi skoraði síðast fyrir íslenska landsliðið og einhvern veginn erfitt að vita við hverju ætti að búast af honum í þessum fyrstu landsleikjum eftir svo langt hlé. En frá fyrstu mínútu í kvöld var augljóst af öllu hans látbragði að hann væri svo sannarlega mættur aftur, tilbúinn að halda áfram að gleðja íslensk hjörtu með mörkum. Það er ekkert venjulegt afrek. Andstæðingarnir í kvöld voru vissulega máttlitlir, stigalausir og bara með það markmið að tapa ekki aftur 7-0 fyrir Íslandi. En Gylfi var ekki bara mikið betri en þeir heldur leiddi hann íslenska liðið áfram eins og hann hefur svo ótal oft gert, og það var bara tímaspursmál hvenær hann myndi skora. Þannig var Gylfi búinn að eiga glæsilegt skot í markvinkilinn og út áður en hann náði í vítaspyrnuna sem fyrra markið hans kom úr, eftir að hann sendi boltann í hönd varnarmanns. Vítaspyrnan hans var stórkostleg, í þverslá og inn, og áhorfendur fögnuðu vel og innilega með honum að hafa jafnað markametið. Gylfi Þór Sigurðsson jafnaði markametið úr þessari vítaspyrnu.VÍSIR/HULDA MARGRÉT En Gylfi hélt áfram að skapa færi og sló svo metið snemma í seinni hálfleik þegar hann var aleinn í teignum eftir sendingu Arnórs Ingva Traustasonar. Allir vissu að úr svona færi myndi Gylfi skora, og það er enn ein rósin í hnappagat hans sem fótboltamanns að geta snúið svona til baka eftir afar langa fjarveru frá öllum fótbolta. Annar meðlimur úr gamla bandinu, Alfreð Finnbogason, skoraði í millitíðinni annað mark Íslands rétt fyrir hálfleik og Elías Rafn Ólafsson kom svo í veg fyrir að Liechenstein næði að minnka muninn úr víti rétt fyrir hlé, í eina skiptið sem gestirnir sköpuðu raunverulega hættu í leiknum. Elías Rafn Ólafsson hélt marki Íslands hreinu í kvöld. Hann varði víti í lok fyrri hálfleiks, sem reyndar var svo endurtekið vegna þess að leikmenn hlupu inn í teiginn, en seinna vítið fór framhjá.VÍSIR/HULDA MARGRÉT Raunar virtust leikmenn Liechtenstein alls ekki með það í huga að ætla sér að ná í stig úr leiknum, og það var skammarlegt að fylgjast með þeim tefja sí og æ allan leikinn, sama þó að þeir væru sjálfir að tapa. Aðeins til að lágmarka skaðann. Er þá ekki skárra að tapa bara frekar 5-0? Hákon Arnar Haraldsson skoraði fjórða og síðasta mark Íslands með glæsilegri vippu þegar enn var hálftími til stefnu, skömmu eftir að Gylfa var skipt af velli. Nýja, markahæsta landsliðsmanninum var afar vel fagnað þegar hann gekk af velli. Íslenska liðið fékk nokkur stórgóð færi til að skora fleiri mörk á meðan að Elías Rafn átti náðugt kvöld í markinu. Guðlaugur Victor Pálsson og Sverrir Ingi Ingason héldu áfram sem miðverðir Íslands og sluppu við að fá á sig mark í kvöld enda andstæðingurinn slakur.VÍSIR/HULDA MARGRÉT Enn afar veik von en annars er það umspil Ísland er nú í 4. sæti síns riðils, sex stigum á eftir Slóvakíu sem er í 2. sæti, þegar tvær umferðir eru eftir. Það er því enn mögulegt, en mjög ólíklegt, að Ísland nái 2. sætinu og komist beint á EM. Til þess þarf liðið að vinna Slóvakíu og Portúgal á útivelli í næsta mánuði, og treysta jafnframt á hjálp frá Bosníu sem þarf að vinna Slóvakíu og ná að minnsta kosti jafntefli við Lúxemborg. Það ólíklegasta í þessu er líklega að Ísland fari til Lissabon og vinni portúgölsku stjörnurnar, og líklega er eðlilegra að horfa til umspilsins í mars sem afskaplega líklegt er að Ísland muni taka þátt í vegna árangurs liðsins í Þjóðadeildinni. Það eru fimm mánuðir í það umspil, og hver mánuður eykur vonandi líkurnar á því að Gylfi verði í mars orðinn fær um að skjóta Íslandi á stórmót á nýjan leik. Kvöldið í kvöld jók óneitanlega á alla bjartsýni varðandi það.
Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Handbolti
Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Handbolti