Eins og við greindum frá í gær slitnaði upp úr samstarfinu og er óvíst vað íslenski UFC bardagakappinn Gunnar Nelson mun gera. Þó er tekin að skýrast upp mynd varðandi það hvernig lyfjaeftirliti UFC verði háttað frá og með næsta ári.
Samkvæmt frétt AP-fréttaveitunnar mun Drug Free Sports International annast söfnun lyfjaprófa fyrir UFC í hinu nýja lyfjaeftirliti sem fer af stað þann 1.janúar á næsta ári.
„Þeir sjá um lyfjapróf í yfir 100 löndum, safna yfir 200 þúsund sýnum árlega. Svo fyrir íþrótt sem telur rétt um 650 íþróttamenn í yfir 50 löndum, hentar þetta okkur fullkomlega,“ segir Jeff Novitzky, varaforseti UFC um DFSI sem hefur margvíslega reynslu í tengslum við lyfjaeftirlit í íþróttum. Meðal annars fyrir NFL, NBA og MLB deildirnar í Bandaríkjunum.
Fyrrum FBI sérsveitarmaðurinn George Piro, sem er best þekktur fyrir að hafa verið einn af þeim sem yfirheyrði íraska einræðisherrann Saddam Hussein á sínum tíma, mun fara fyrir þessu nýja eftirliti UFC.
Forráðamenn UFC eru allt annað en sáttir með það hvaða stefnu samstarfið við USADA tók og þá sér í lagi yfirlýsingu Travis Tygart, framkvæmdastjóra USADA sem sagði að upp á síðkastið hefði samband UFC við USADA tekið að stirðna. UFC íhugar að fara með USADA fyrir dómstóla vegna málsins.
Viðræður um áframhaldandi samstarf höfðu verið í gangi milli fulltrúa USADA og UFC en nú er það að frumkvæði UFC sem ákvörðun hefur verið tekin um að samstarfið muni líða undir lok strax í byrjun næsta árs.
Deilumál varðandi stöðu írska bardagakappans Conor McGregor eru sögð spila stóran þátt í endalokum samstarfsins en USADA ýjar að því að UFC hefði viljað undanþágu fyrir Írann frá reglum USADA. UFC harðneitar þessum staðhæfingum USADA.